Belgísk-hollenski ökuþórinn Max Verstappen sem keyrir fyrir Red Bull Racing-Honda kom fyrstur í mark í austurríska kappakstrinum í Formúlu 1 sem fram fór á Spielberg-brautinni í gær.

Þetta er annað árið í röð sem Verstappen ber sigur úr býtum í brautinni í Austurríki en hann er á hálfgerðum heimavelli þarna þar sem Red Bull er aðal styrktaraðili brautarinnar.

Þetta var langþráð stund fyrir hinn almenna áhugamann á Formúlu 1 en Lewis Hamilton hafði unnið fjóra kappakstrana á undan þeim í gær og alls sex af átta kappökstrum keppnistímabilsins.

Þá var þetta sömuleiðis fyrsti sigurinn hjá keppanda hjá öðrum framleiðenda en Mercedez. Finninn Valtteri Bottas liðsfélagi Hamilton hjá Mercedez hafði unnið hina kappakstrana tvo á tímabilinu.

Char­les Leclerc var á ráspól og leiddi kappaksturinn fram að því að þrír hringir voru eftir af kappakstrinum, þegar Verstappan sigldi fram úr honum. Bottas varð í þriðja sæti, Sebastian Vettel á Ferrari í fjórða og Hamilton varð að gera sér fimmta sætið að góðu.

Hamilton er í efsta sæti stigalistans, samherji hans Bottas er í öðru sæti. Verstappen skaust upp í þriðja sæti þess lista með þessum sigri og skaut þar Vettel niður í fjórða sæti. Mercedez er áfram með öruggt forskot í keppni bílaframleiðenda.