„Ég hallast að því að það sé aðeins of snemmt að hægt sé að tala um lyklaskipti í Formúlunni en þau gætu átt sér stað á þessu ári. Fyrir vikið er ljóst að þetta verður eitt mest spennandi tímabil í Formúlunni í manna minnum,“ segir Kristján Einar Kristjánsson, lýsandi Formúlunnar hjá Viaplay og hlaðvarpsstjórnandi Pittsins, hlaðvarpsþáttar um Formúlu 1, aðspurður um hvort komið væri að valdaskiptum í heimi fremstu akstursíþróttamanna heims.

Í fyrsta sinn í langan tíma virðist Lewis Hamilton, sigursælasti ökuþór allra tíma ásamt Michael Schumacher og heimsmeistari undanfarinna fjögurra ára, sem ekur fyrir Mercedes, ekki vera sér á báti í hverri keppni. Hefur Bretinn ekki unnið í síðustu fjórum keppnum en hann vantar tvo sigra til að verða fyrsti ökuþórinn til að bera sigur úr býtum í hundrað kappökstrum í Formúlu 1.

„Næsta keppni fer fram strax um helgina, á sömu braut, og þar verður spennandi að sjá hver viðbrögðin verða eftir þennan örugga sigur Verstappen um helgina. Að mörgu leyti var búið að fela veikleika Mercedes og Hamilton undanfarin ár, ein mistök kostuðu þá yfirleitt ekkert en nú eru þeir undir pressu sem þeir hafa ekki fundið fyrir lengi,“ segir Kristján.

Þegar þriðjungur er búinn af tímabilinu er Verstappen með átján stiga forskot og hefur unnið fjórar keppnir af átta. Verstappen hefur þrisvar lent í öðru sæti en eina skiptið sem hann komst ekki á verðlaunapall brást bíllinn honum í Azerbaídsjan. Hann hefur því þegar unnið fleiri keppnir á þessu tímabili en á nokkru af sjö tímabilunum þar áður og tímabilið er ekki hálfnað.

„Það sem gerir þetta tímabil svo magnað er að fá að sjá þennan unga og óhrædda ökuþór gera atlögu að krúnunni hans Hamilton. Þetta er ekki dæmi um að einstaklingur sem hefur haft gríðarlega yfirburði, eins og Hamilton hefur haft undanfarin ár, sé að hætta og þá taki einhver nýr við keflinu. Vettel náði ekki sömu hæðum og Hamilton áður en einokunartímabil Mercedes tók við en nú er annar ungur ökuþór að gera atlögu að krúnunni.“

Belginn Verstappen fékk viðvörun frá yfirvöldum fyrir að hægja viljandi á sér og spóla yfir ráslínuna í lok kappakstursins í Austurríki en hann hefur svægi sem jaðrar oft við hroka.

„Hann er fyrst og fremst stórkostlegur ökumaður og gerir hluti sem aðrir virðast ekki geta. Það er svægi yfir honum og hann hefur alltaf verið töffari sem fólk upplifir stundum sem hroka en honum hefur tekist að standa undir því,“ segir Kristján léttur, aðspurður út í hegðun Verstappen í lokin um helgina.

„Hann er að stíga upp úr því að teljast efnilegur en hefur um leið sýnt það undanfarin ár hvað í honum býr en bíllinn sem hann hefur haft hefur ekki staðist snúninginn. Þessi samvinna Red Bull og Honda eftir að Red Bull skipti yfir í vél frá Honda virðist hafa verið hárrétt skref.“

Kristján segir að það sé að vekja aukinn áhuga að sjá aðra gera atlögu að meistaratitlinum eftir einokun Mercedes og Hamilton. Hamilton hefur unnið sex af síðustu sjö heimsmeistaratitlum en aðeins Nico Rosberg, sem keppti þá fyrir hönd Mercedes, hefur tekist að stöðva sigurgöngu Hamilton frá árinu 2014.

„Við finnum fyrir mikilli aukningu í áhuganum, bæði í útsendingum og í hlustendatölum á Pittinum, hlaðvarpinu um Formúlu 1. Það er nefnilega ekki bara meistarabaráttan sem er spennandi, það eru sofandi risar í Ferrari og McLaren með unga og efnilega ökuþóra að berjast um þriðja til fjórða sætið.“