Hollenski ökuþórinn Max Verstappen hreppti sinn fyrsta heimsmeistaratitil í Formúlu 1 eftir æsispennandi úrslitakeppni gegn Lewis Hamilton í Abú Dabí í dag.

„Þetta er ótrúlegt!“ sagði Verstappen sigurreifur. „Loksins örlítil heppni fyrir mig.“

Um er að ræða dramatískan sigur á lokametrunum því fyrir þennan síðasta kappakstur voru Verstappen og Hamilton jafnir að stigum. Ljóst var að lokakappaksturinn myndi skera úr um sigurvegarann og Hamilton hafði forystu allt fram að síðasta hring lokakappakstursins. Það var ekki fyrr en í blálokin sem Verstappen tókst að sneiða fram hjá mótkeppanda sínum og tryggja sér sigurinn.

Niðurstaðan er mikil vongbrigði fyrir Hamilton sem leiddi keppnina lengi framan af.
Fréttablaðið/EPA

Hamilton óskaði Verstappen og liði hans til hamingju og þakkaði sínu liði einnig fyrir frábæra frammistöðu. „Við sjáum til með næsta ár,“ sagði hann svo.

Fréttablaðið/EPA