Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari og ökumaður Red Bull Racing bar sigur úr býtum í Ungverjalandskappakstrinum í Formúlu 1 um nýliðna helgi. Hollendingurinn fljúgandi er nú á toppi stigakeppni ökumanna með 80 stiga forskot og það virðist fátt geta komið í veg fyrir að hann verji titil sinn.

Rætt var um stöðuna sem upp er komin í Formúlu 1 í nýjasta þætti hlaðvarpsþáttarins Pitturinn en auk forskots Verstappens í stigakeppni ökumanna leiðir Red Bull Racing stigakeppni bílasmiða með 97 stiga forskoti.

,,Ég tel að Red Bull Racing muni ekki tapa niður þessari forystu, ég stórefa það," sagði Bragi Þórðarson, einn af umsjónarmönnum Pittsins

Kristján Einar Kristjánsson kollegi hans í þættinum tók undir það og bætti við: ,,Max er kominn með níu fingur á þetta. Það þarf eitthvað ótrúlegt að gerast núna svo hann tapi þessu, eitthvað í líkingu við að hann fótbtotni og missi af restinni af tímabilinu."

Ferrari getur sjálfu sér um kennt eftir keppni helgarinnar þar sem keppnisáætlun liðsins var ekki upp á marga fiska. Bragi bendir á að þó úrslitin hafi ekki verið með Ferrari þessa helgina, sé liðið á góðum stað.

,,Ef við myndum bara horfa á tölurnar á þessu tímabili þá lítur þetta út eins og tímabilin sem Mercedes gjörsamlega valtaði yfir allt og alla en við sem höfum fylgst með yfirstandandi tímabili vitum að Ferrari hafa verið geggjað góðir"

Hægt er að hlusta á nýjasta þátt Pittsbræðra hér fyrir neðan: