Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1 og ökumaður Red Bull Racing segir framtíð sína í Formúlu 1 eftir að núverandi samningur hans við Red Bull rennur út árið 2028 velta á ýmsu.

Verstappen leiðir stigakeppni ökumana á þessum tímapunkti tímabilsins og virðist líklegur til að verja titilin. Hann var spurður út í framtíð sína í Formúlu 1 í viðtali á dögunum.

,,Kannski mun ég bara hætta," sagði Verstappen er hann var spurður að því hvað gæti tekið við þegar samningur hans við Red Bull rennur út árið 2028.

,,Á þeim tímapunkti mun ég hafa keppt lengi í Formúlu 1. Þetta veltur allt á því hveru góðum bíl ég ek í mótaröðinni og hvort ég geti enn keppt til sigurs í keppnum. Ég gæti ekki þolað að vera í bíl sem keppir ekki til sigurs. Þá myndi ég frekar vilja keppa í annarri mótaröð."

Hann segist hins vegar vera á góðum stað núna.

,,Ég er í rétta liðinu. Mér líður vel með það sem við erum að gera og því er engin ástæða til þess að bryeta til."

Margir horfa til þess að Verstappen geti mögulega unnið til fleiri heimsmeistaratitla en Sir Lewis Hamilton og Michael Schumacher sem hafa báðir orðið heimsmeistarar ökumanna sjö sinnum.

Verstappen er aðeins 24 ára og kominn með einn heimsmeistaratitil ökumanna.

Það þarf hins vegar ekki að vera svo að Verstappen nái að bæta það met. Hann hefur mikinn áhuga á öðrum mótaröðum og gæti viljað reyna fyrir sér í þeim.

Þá útilokar hann ekki að keyra í öðrum mótaröðum samhliða Formúlu 1.

,,En ekki á þessu ári, kannski ári eftir það. 24 klukkustunda keppnir er eitthvað sem heillar mig. Le Mans, Spa-Francorchamps, Daytona eða 12 klukkustunda keppnin í Sebring."