Í viðtali við Sky Sports í gær sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes, að það væri ekki víst að Hamilton myndi keyra í Formúlu 1 á næsta tímabili. Ummælin lét Toto falla í kjölfarið á einni dramatískustu keppnishelgi í sögu Formúlu 1 þar sem að Max Verstappen tryggði sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil á lokahringnum í lokakeppni tímabilsins í Abu Dhabi með því að taka fram úr Lewis Hamilton sem var hársbreidd frá því að tryggja sér sinn áttunda heimsmeistaratitil.

,,Ég get skilið það fyrstu dagana eftir keppnina að hann sé ekki ánægður en hann þarf einnig að hafa það hugfast að þetta er kappakstur, svona hlutir gerast," sagði Max Verstappen í viðtali á verðlaunahátið FIA í gærkvöldi þar sem hann fékk afhentan heimsmeistaratitilinn.

Verstappen vill að Hamilton hugsi um það sem hann hefur áorkað í íþróttinni og hvað hann gæti afrekað í framtíðinni. ,,Það ætti að veita honum huggun og að sama skapi ætti það að vera honum drifkraftur vegna þess að hann er að reyna næla í þennan áttunda heimsmeistaratitil og mun án nokkurs vafa geta barist um hann á næsta ári svo ég sé enga ástæðu fyrir hann að hætta núna," sagði Max Verstappen, nýkrýndur heimsmeistari í Formúlu 1.

Verstappen segist ekki finna til með Hamilton en segist skilja að niðurstaða síðustu helgar geti reynst honum sársaukafull. Hann vildi líka minna á að Hamilton hafi unnið heimsmeistaratitil á svipaðan hátt árið 2008 þegar að hann tók framúr Felipe Massa, þáverandi ökumanni Ferrari í lokabeygju, á lokahringnum, í lokakappakstrinum.

Hvað gerðist?

Hamilton og Verstappen voru jafnir að stigum fyrir lokakeppni Formúlu 1 tímabilsins í Abu Dhabi. Atvik sem átti sér stað undir lok keppninnar hefur skipt kappakstursáhugamönnum í tvennt. Eftir að Nicholas Latifi, ökumaður Williams, klessti bíl sinn innan brautar þurfti að kalla út öryggisbíl. Lengi vel leit út fyrir að keppnin myndi enda fyrir aftan öryggisbílinn en hann var kallaður inn fyrir lokahring keppninnar.

Fyrir það hafði hringuðum bílum fyrir aftan öryggisbílinn verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggisbílinn þar sem að þeir voru staðsettir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Verstappen sem var í öðru sæti.

Keppnisstjórnendur ákváðu hins vegar að breyta ákvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir forystusauðunum að afhringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt uppdráttar þar sem að Verstappen var á mun betri dekkjagangi. Svo fór að hann tók framúr Hamilton og tryggði sér sigur í stigakeppni ökumanna.

GettyImages

Eftirmálar

Mercedes sendi frá sér yfirlýsingu eftir keppnina á sunnudaginn þar sem að liðið sagðist hafa það í hyggju að áfrýja niðurstöðu ráðsmanna Formúlu 1 eftir kappaksturinn í Sádí-Arabíu.

Forráðamenn Mercedes höfðu átt fund með ráðsmönnum Formúlu 1 þar sem að þeir mótmælti ákvörðun ráðsmanna og að þeim hafi fundist tvær reglugerðir hafa verið brotnar í ákvörðun ráðsmanna Formúlunnar um að leyfa hringuðum bílum að afhringasig undir lok keppninnar á bak við öryggisbíl.

Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes
GettyImages

Í gær var það hins vegar staðfest að Mercedees myndi ekki áfrýja niðurstöðu ráðsmanna. Ávörðun Mercedes um að áfrýja ekki staðfestir þá staðreynd að Max Verstappen er ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1.

,,Í samráði við Lewis Hamilton höfum við íhugað vandlega þá atburði sem áttu sér stað í lokakeppni Formúlu 1 tímabilsins. Við hvívetna haft ást okkar fyrir íþróttinni í fyrirrúmi og trúum því að allar keppnir eigi að sigrast á eigin verðleikum. Í síðustu keppni fannst mörgum, þar með talið okkur að það hvernig hlutirnir þróuðust hafi ekki verið réttlátt. Ástæðan fyrir því að við mótmæltum úrslitum keppninnar á sunnudaginn var sú að reglum um öryggisbíla var beitt á nýjan hátt sem hafði áhrif á úrslit keppninnar, eftir að Lewis hafði verið í forystu og á leiðinni að vinna heimsmeistaratitilinn," sagði meðal annars í yfirlýsingu frá Mercedes sem birtist í gær.