Ríkjandi heimsmeistarinn í Formúlu 1, Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing hefur fengið fimm sæta refsingu fyrir kappakstur helgarinnar sem fer fram í Monza á Ítalíu.

Red Bull Racing vill endurnýja hluta vélarbúnaðarins í bíl Verstappen og því fær hann refsinguna en hann er þó ekki eini ökumaðurinn til þess að taka á sig refsingu.

Sömu sögu er að segja af Carlos Sainz, ökumanni Ferrari, Sir Lewis Hamilton, ökumanni Mercedes, Yuki Tsunoda, ökumanni Alpha Tauri og Valtteri Bottas, ökumanni Alfa Romeo.

Það kom ekki í bakið á Verstappen síðast þegar hann tók á sig refsingu vegna breytinga fyrir belgíska kappaksturinn. Hann endaði á því að skila einni bestu frammistöðu sem hefur sést í Formúlu 1 síðari ár.

Kappaksturinn í Monza er án efa kappakstur sem Verstappen vill næla í. Verstappen, sem leiðir stigakeppni ökumanna nokkuð örugglega, hefur aldrei endað á verðlaunapalli á Monza í Formúlu 1 en brautin er heimavöllur Ferrari.