Max Verstappen tryggði sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil á Formúlu 1 ferlinum með undraverðum sigri í Abu Dhabi. Pittsbræður fóru vel yfir keppnina örlagaríku í nýjasta þætti Pittsins.

,,Niðurstaðan okkar er þessi. Max Verstappen verðskuldaði heimsmeistaratitilinn. Hann var gjörsamlega magnaður á þessu tímabili. Lewis Hamilton var það líka en ekki jafn magnaður. Hins vegar þá erum við Bragi sammála um að þessi keppni var ekki rétt," sagði Kristján Einar, annar umsjónarmanna Pittsins í uppgjörsþætti vikunnar.

,,Við erum sammála um að Lewis Hamilton átti skilið að vinna þessa keppni," sagði Bragi, kollegi Kristjáns í hlaðvarpsþættinum Pitturinn.

Avik sem átti sér stað undir lok síðustu keppninnar í Abu Dhabi hefur skipt kappakstursáhugamönnum í tvennt. Eftir að Nicholas Latifi, ökumaður Williams, klessti bíl sinn innan brautar þurfti að kalla út öryggisbíl. Lengi vel leit út fyrir að keppnin myndi enda fyrir aftan öryggisbílinn en hann var kallaður inn fyrir lokahring keppninnar.

Fyrir það hafði hringuðum bílum fyrir aftan öryggisbílinn verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggisbílinn þar sem að þeir voru staðsettir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Verstappen sem var í öðru sæti.

Keppnisstjórnendur ákváðu hins vegar að breyta ákvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir forystusauðunum að afhringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt uppdráttar þar sem að Verstappen var á mun betri dekkjagangi. Svo fór að hann tók framúr Hamilton og tryggði sér sigur í stigakeppni ökumanna.

,,Ég skil að stuðningsmenn Hamilton séu með ógeðslega súrt bragð í munninum. Ég væri örugglega með það ef mér þætti Max Verstappen svona verðskuldaður. Ég þoli ekki að þetta endi í einhverju bulli og að það sé hætt að draga í efa eitthvað í sportinu," sagði Kristján Einar í hlaðvarpsþættinum Pitturinn.

,,Lewis Hamilton átti skilið að vinna þessa keppni, Max Verstappen átti skilið að verða heimsmeistari en það púsluspil gengur bara ekki upp," sagði Bragi Þórðarson, annar af umsjónarmönnum hlaðvarpsþáttarins Pitturinn.

Lewis Hamilton og Verstappen að keppni lokinni í Abu Dhabi
GettyImages