Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1 og ökumaður Red Bull Racing snýr aftur á heimavöll sinn í Zandvoort í Hollandi um helgina og ætlar að gera það með stæl. Verstappen er með 93 stiga forystu á toppi stigakeppni ökumanna og mun heiðra föður sinn, Jos Verstappen á táknrænan hátt um helgina.

Jos Verstappen ók í Formúlu 1 á árunum 1994 til 2003 án þess þó að ná heimsmeistaratitli en í tilefni þess að Formúla 1 fer fram í Hollandi um helgina hefur Max ákveðið að láta hanna hjálminn sem hann mun skarta um helgina eftir hjálminum sem faðir hans ók með á sínum Formúlu 1 ferli, þó með nokkrum breytingum..

„Í ár taldi ég það við hæfi að þakka honum fyrir allt það sem hann hefur gert fyrir mig, bæði þegar ég var ungur og til dagsins í dag þar sem ég hef náð að verða heimsmeistari," sagði Max Verstappen í færslu á Instagram.