Guðný Árnadóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu er á leið á sitt fyrsta stórmót sem leikmaður og samkvæmt Ragnhildi Einarsdóttur, móður Guðnýjar mun fjölskyldan styðja dyggilega við bakið á sinni stelpu.

„Þetta erum við foreldrarnir, systur hennar, amma hennar og stórtengdafjölskyldan sem ætlum að fylgja henni,“ segir Ragnhildur Einarsdóttir, mamma Guðnýjar, aðspurð hvort það fari stór hópur með Hornfirðingnum á hennar fyrsta stórmót.

„Frændfólk hennar á miða á leiki sem voru í svolítilli biðstöðu til að sjá hvort að hún myndi ná sér.“ Ragnhildur er að fara á sitt fyrsta stórmót og er spennt fyrir nýjunginni.

„Guðný fór með pabba sínum að fylgjast með einum leik á Evrópumótinu 2017, en ég er að fara í fyrsta sinn. Þetta verður skemmtileg upplifun að sjá hana spila þarna. Ég er búin að bíða spennt síðan í vor, hvort hún verði ekki örugglega búin að ná sér,“ segir Ragnhildur en Guðný hefur verið að ná sér af meiðslum.

Fyrsti leikur Íslands á Evrópumótinu er gegn Belgíu á sunnudaginn næstkomandi.