Hinn 54 ára gamli knattspyrnumaður, Kazuyoshi Miura, hefur gengið til liðs við fjórðu deildar lið Suzuka Point Getters frá Yokohama FC. Þetta kemur fram í grein The Athletic um málið.

Miura er jafnan þekktur sem King Kazu í heimalandinu en hann verður 55 ára í næsta mánuði og er að fara taka þátt í sínu 37. knattspyrnutímabili á ferlinum.

King Kazu er elsti leikmaðurinn til að spila í efstu deild Japans, það gerði hann í mars á síðasta ári er hann kom inn á sem varamaður í liði Yokohama í leik gegn Urawa Reds. Hann var þá 54 ára og tólf daga gamall. Þá er hann einnig elsti leikmaðurinn til að skora mark í deildinni.

Hjá sínu nýja liði, Susuka Point Getters, mun King Kazu spila undir stjórn bróður síns. Þetta verður fimmtánda félagið sem hann spilar fyrir.

,,Ég er þakklátur fyrir að hafa verið gefið tækifæri á að spila hér og mun gera mitt besta til að leggja mitt af mörkum fyrir félagið innan vallar," sagði King Kazu, eftir að hafa skrifað undir lánssamning við Suzuka Point Getters.

Til marks um það hversu magnaður ferill King Kazu er, þá er hægt að benda á þá staðreynd að hann er eldri en efsta deild Japans í knattspyrnu, J-League.

King Kazu, hefur leikið 89 leiki fyrir landslið Japans og var hluti af japanska liðinu sem vann Asíu-bikarinn árið 1992. Þá er hann næst markahæsti leikmaðurinn í sögu japanska landsliðsins með 55 mörk.