„Mér líst bara vel á þetta verkefni. Þetta er hættulegur andstæðingur. Við unnum þá stórt á heimavelli og þá er hætt við því að leikmenn liðsins haldi að þetta verði auðvelt verk. Það er verkefni okkar þjálfaranna að núllstilla leikmennina fyrir þennan leik," segir Guðmundur Þórður um gríska liðið.

„Það eru allt aðrar aðstæður að leika á útivelli og það er margt sem getur haft áhrif á frammistöðu okkar. Þetta er bara nýr leikur og við verðum að byrja af krafti og gera þetta fagmannlega," segir hann enn fremur.

„Ég var mjög ánægður með varnarleikinn í seinni leiknum á móti Norður-Makedóníu og við þurfum að taka það með okkur í leikinn gegn Grikklandi. Stefnan er að ná þeirri vörn upp aftur. Sóknarleikurinn hefur gengið vel heilt yfir í undankeppninni og mun vonandi gera áfram," segir þjálfarinn um upplegg liðsins.

„Ég finn það á leikmönnum að þá hlakkar til þessara leikja. Þrátt fyrir að leikmenn séu að koma í þessa leiki eftir langt og strangt keppnistímabil þá hefur álagið ekki verið svo mikið undanfarna daga. Kannski er einhver andleg þreyta en ég hef ekki áhyggjur af því að leikmenn nái ekki að mótívera sig fyrir verkefni með íslenska landsliðinu," segir Guðmundur um nálgun lærirsveina á tvo síðustu leiki undankeppninnar.

Fyrir þennan leik eru Ísland og Norður-Makedónía efst og jöfn með fimm stig á toppi riðilsins en Tyrkland sem verður anstæðingur íslenska liðsins í lokaumferðinni kemur þar á eftir með fjögur og Grikkland rekur lestina í riðlinum með tvö stig.

Tvö efstu liðin tryggja sér farseðilinn í lokakeppni EM sem haldið veðrur í Austurríki, Noregi og Svíþjóð í janúar á næsta ári. Sigur í leiknum á móti Grikklandi í kvöld getur tryggt Íslandi sæti þar. Leikurinn hefst klukkan 17.00 að íslenskum tíma.