Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi sérfræðingur Sky Sports, vill að gengið verði frá samningum við stjörnuleikmann Liverpool, Mohamed Salah, sem fyrst. Hann segir óljóst hvert Salah gæti farið ef hann verður ekki áfram hjá Liverpool.

,,Stuðningsmenn Liverpool ættu að vera stressaðir yfir því að þessar viðræður eru að dragast enn frekar á langinn. Aðrir stórir leikmenn hjá Liverpool hafa skrifað undir nýja samninga undanfarna mánuði," sagði Carragher á Sky Sports í gærkvöldi þar sem rætt var um samningsmál Salah.

Carragher segir að Salah muni vilja fá jafn mikið borgað og aðrir stórir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni ,,og af hverju ætti hann ekki að vilja það? Hann verðskuldar það sem einn besti leikmaður heims um þessar mundir."

Það er mat Carragher að vandamálið fyrir Salah og það sem Liverpool er einnig meðvitað um er það hvert annað getur hann farið? ,,Risarnir á Spáni eru eiginlega fyrir utan þessa jöfnu bara sökum fjárhagslegra vandræða. Myndi Salah vilja eyðileggja arfleið sína hjá Liverpool með því að fara til Manchester City eða Manchester United? Mjög líklega ekki. En þessi staða hjálpar Liverpool í þeirra samningaviðræðum."

Carragher vill að gengið verði frá samningsmálum Salah eins fljótt og auðið er. ,,Þá er ég ekki að tala um að ganga bara að öllum hans kröfum. Ég held hins vegar að stjórn og eigendum Liverpool verði seint fyrirgefið ef Salah fer frá félaginu," sagði Jamie Carragher, sérfræðingur Sky Sports í gær.

Mohamed Salah gekk til liðs við Liverpool frá Roma í júlí árið 2017. Síðan þá hefur hann orðið Englands- og Evrópumeistari með liðinu, spilað 229 leiki og skorað 148 mörk.