Karun Chandhok, fyrrum ökumaður í Formúlu 1 og nú sérfræðingur Sky Sports í kringum mótaröðina er á því að þegar að þeim tímapunkti kemur, að Lewis Hamilton láti gott heita af ökumannsferli sínum í Formúlu 1, ætti Mercedes að fylla upp í skarðið sem hann skilur eftir sig með því að næla í Lando Norris, ökumann McLaren.
Hinn 38 ára gamli Lewis Hamilton er einn af sigursælustu ökumönnunum í sögu Formúlu 1 með sjö heimsmeistaratitla á bakinu. Samlandi hans, hinn 23 ára gamli Lando Norris er einn af mest spennandi ökumönnum mótaraðarinnar þessa dagana og býr hann yfir miklum hæfileikum, sem og reynslu í Formúlu 1 þrátt fyrir unga aldur.
Núverandi samningur Lando Norris við McLaren rennur út eftir tímabilið 2025 á meðan að núverandi samningur Lewis Hamilton rennur út eftir komandi tímabil. Hvort Hamilton skrifi undir nýjan samning við Mercedes eður ei breytir því þó ekki, að mati Chandhok, að Mercedes þarf að fara búa sig undir lífið eftir Hamilton.
„Hvert Norris mun fara er spurningin,“ sagði Chandhok í samtali við Autosport. „Raunveruleikinn er sá að ég sé hann ekki fyrir mér fara til Red Bull til að vera ökumaður númer tvö á eftir Max Verstappen. Þá er Ferrari í læstri stöðu með sína tvö ökumenn. Valmöguleikar hans snúa því að Mercedes þegar Lewis Hamilton hættir því George Russell er ekki að fara neitt.“
Mercedes gæti því þurft að kaupa upp samning Norris, vilji forráðamenn liðsins fá hann til liðs við sig.
„McLaren getur verið öruggt með að halda í hann þangað til. En segjum sem svo að þegar að við nálgumst lok ársins og fáum svo tilkynningu frá Hamilton um aðh ann ætli að láta gott heita.
Þá gæti tekið við ansi flókið ferli, á því liggur engin vafi. Lando hlýtur að vera fyrsta val Mercedes þegar forráðamenn liðsins horfa til mögulegra arftaka Hamilton.“