Samningaviðræður Mike Ashley og Mohammed bin Salman Al Saud, krónprinsins í Sádi-Arabíu, um kaup á Newcastle fóru aftur á fullt í gær og gætu kaupin gengið í gegn í dag.

Fjárfestingasjóðurinn Public Investment Fund frá Sádi Arabíu stendur að kaupunum en honum er stýrt af bin Salman.

Viðræður Newcastle og fjárfestingasjóðsins hófust að nýju í gær eftir að yfirvöld í Sádi-Arabíu og yfirmenn beIN Sport, rétthafa enska boltans í Mið-Austurlöndunum, náðu sáttum eftir áralangar deilur.

Fjölskylda Bin Salman er verðmetin á eina billjón punda enda stýrir fjölskyldan Aramco, einu stærsta olíufyrirtæki heims sem er verðmetið á tvær billjónir dala.

Verðandi eigandi Newcastle er því mun ríkari en nokkur annar eigandi félags í ensku úrvalsdeildinni.

Hann er áttundi valdamesti maður heims samkvæmt lista Forbes og fundar reglulega með forsetum stærstu ríkja heims.

Meðal þeirra sem hafa fundað með Bin Salman undanfarin ár má nefna Barack Obama og Donald Trump og kallaði Trump krónprinsinn vin sinn.

Þá hefur Bin Salman fundað með Vladimir Putin, forseta Rússlands og Elísabetu, drottningu Englands.

Hann er um leið þekktur fyrir eyðslusama lífshætti en hann á eina af dýrustu snekkjum heims sem kostaði hann fimm hundruð milljónir dala árið 2015.

Það væsir ekki um hann þegar hann vill ferðast en hann keypti dýrasta hús heims fyrir utan París á rúmlega þrjú hundruð milljónir dollara árið 2013.