Forsvarsmenn Ungmennafélag Íslands, UMFÍ, og fleiri hagsmunaaðilar í íslensku íþróttastarfi eru ekki ánægðir með að þær fjárhæðir sem íslenskir tipparar veðja á erlendum veðmálasíðum skili sér ekki með neinum hætti í íþróttastarfið hér á landi.

Íþróttahreyfingin á Íslandi á ásamt fleirum getraunafyrirtækin Íslenska getspá og Íslenskar getraunir. Afkoma þessara fyrirtækja skilar mánaðarlegum greiðslum til íþróttafélaga um allt land og aukagreiðslum þegar vel gengur. Hérlendis tippa þó margir á erlendum veðmálasíðum, fyrirtækjum sem er ekki heimilt að vera með starfsemi hér á landi og styrkja þar af leiðandi ekki íþróttastarf á Íslandi.

Talið er að Íslendingar verji um sjö milljörðum króna í veðmál á erlendum síðum og af þeim sökum verði íþróttafélög hérlendis af fjórum milljörðum sem runnið gætu í starf þeirra. Þá er veltan á erlendum síðum á íslenska knattspyrnuleiki allt upp í 1,5-2 milljarða króna á dag.

„Við erum kannski fyrst og fremst að hvetja íslenska tippara til þess að beina viðskiptum sínum til Íslenskra getrauna og Íslenskrar getspár og styrkja um leið íþróttastarf samhliða því að þeir spá í spilin,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, varaformaður UMFÍ.

„Þá viljum við einnig að tekin sé einhver ákvörðun um hvernig umhverfið verður hvað veðmálasíður varðar. Það er að tekið verði fastar á því að banna starfsemi erlendra veðmálasíðna ef það er leiðin sem fara á og að öðrum kosti renni hagnaður þeirra inn í íslenskt íþróttasamfélag,“ segir varaformaðurinn.

„Það er vinnuhópur á vegum menntamálaráðuneytisins sem er með þetta mál til skoðunar og málið er í góðu ferli. Við viljum kannski bara að landslagið hvað þetta snertir verði gert skýrara eins fljótt og auðið er, þar sem það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir íþróttafélögin í landinu,“ segir hann enn fremur.