Sir Alex Ferguson var ráðinn knattspyrnustjóri Manchester United á þessum degi árið 1986 en hann átti eftir að marka djúp spor í sögu félagsins á þeim 27 árum sem hann var við stjórnvölinn hjá karlaliði félagsins.

Þegar hann tók við liðinu var liðið í slæmum málum í næstneðsta sæti ensku efstu deildarinnar og agaleysi ríkti hjá liðinu. Á meðal vandamála liðsins var helst til mikil drykkja lykilleikmanna á borð við Norman Whiteside, Paul McGrath og Bryan Robson.

Ferguson tók til hendinni hjá liðinu, skerpti á agamálum og kom leikmönnum í betra líkamlegt form. Það skilaði sér í því að Manchester United klifraði upp í miðja deild og hafnaði í 11. sæti á fyrstu leiktíð hans.

Fyrir keppnistímabilið 1987 til 1988 keypti Ferguson leikmenn sem styrktu liðið umtalsvert en það voru þeir Steve Bruce, Viv Anderson, Brian McClair og Jim Leighton.

Manchester United tók stört stökk upp á við í þróun sinni að gera sig gildandi í toppbaráttu ensku efstu deildarinnar en liðið hafnaði í öðru sæti deildarinnar á eftir Liverpool sem bar höfu og herðar yfir önnur lið á þessum tíma.

Á þessu tímabili spilaði Manchester United tvo vináttulandsleiki við landslið Bermúda annars vegar og Somerset Cricket Club. Ferguson skipti sjálfum sér inná í leiknum gegn Somerset og spilaði þar sinn fyrsta og eina leik fyrir liðið.

Mark Hughes snéri aftur á Old Trafford eftir veru sína hjá Barcelona fyrir leiktíðina 1988 til 1989 en Manchester United tók skref til baka á því tímabili og hafnaði í 11. sæti deildarinnar.

Nálægt því að vera rekinn eftir þriggja ára veru hjá félaginu

Eftit vonbrigðin fór Ferguson mikinn á leikmannamarkaðnum sumarið 1989 og keypti Gary Pallister, Neil Webb, Mike Phelan, Paul Ince og Danny Wallace. Þrátt fyrir þessi umfangsmiklu kaup lagaðist staðan ekkert hjá Manchester United og í desember voru stuðningsmenn liðsins með háværa kröfu um að Ferguson myndi taka pokann sinn.

Sparkspekingar sögðu að á þeim þremur árum sem Ferguson hefði verið hjá félaginu hefðu hlutirnir ekkert batnað og nóg komið af stanslausum afsökunum Skotans á slæmu gengi undir sinni stjörn.

Þegar Manchester United mætti Nottingham Forest í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar hafði liðið ekki haft betur í síðustu sjö leikjum sínum og háværar raddir voru um að tap í þeim leik myndi þýða að Ferguson yrði rekinn.

Sigurmark Mark Robins kom Ferguson hins vegar til bjargar og Manchester United fór alla leið í bikarúrslitaleikinn og Ferguson vann sinn fyrsta titil af mörgum í stjórastólnum vorið 1990.

Tímabilið 1990 til 1991 einkenndist af óstöðugleika í ensku efstu deildinni hjá Manchester United en liðið varð í sjötta sæti deildarinnar. Á þessari leiktið kom Ryan Giggs fram á sjónarsviðið en hann átti heldur betur eftir að láta til sín taka hjá félaginu.

Manchester United hélt áfram á þeirri braut að safna bikurum í safn sitt en 2-1 sigur á móti Barcelona tryggði liðinu sigur í Evrópukeppni bikarhafa. Sumarið 1991 keypti Ferguson Peter Schmeichel og bakvörðinn Paul Parker.

Þá var Lee Sharpe sem átti eftir að gera garðinn frægan í Grindavík síðar að koma upp úr unglingastarfi Manhester United á þessum tíma. Andrei Kanchelskis var fenginn til þess að hressa upp á sóknarleik liðsins.

Mikið breyttist með tilkomu Eric Cantona

Enginn glæsibragur var á leiktíðinni 1991 til 1992 en sigur í enska deildarbikarnum var sárabót. Liðinu gekk illa að skora á þeirri leiktíð og það var forgangsatriði hjá Ferguson að næla sér í markaskorara af guðs náð fyirr næsta tímabil.

Eftur að hafa mistekist að tryggja sér þjónustu Alan Shearer og Paul Hirst var lendingin að klófesta Dion Dublin sem kom fra Cambridge United. Leiktíðin 1992 til 1993 hófst rólega en kaup á frönskum framherja í janúar hristu hressilega upp í hlutunum.

Eric Cantona kom þá frá Leeds United en hann var annálaður fyrir erfitt lundarfar og mikið skap. Cantona og Mark Hughes mynduðu eitrað framherjapar. Sigurmark Steve Bruce í leik gegn Sheffield Wednesday í apríl í uppbótartíma leiksins kom liðinu í efsta sæti deildarinnar og í þeim leik varð til sögulínan um svokallaðan Fergie-tíma.

Vorið 1993 varð Manchester United enskur meistari í fyrsta skipti með Ferguson í brúnni. Manchester batt þar enda á 26 ára bið liðsins eftir enska meistaratitlinum. Sigurinn í deildinni var mjög sannfærandi en Manchester United endaði 10 stigum á undan Aston Villa.

Velgengnin hélt áfram tímabilið þar á eftir en ein af stóru ástæðunum fyrir því var koma 22 ára írsks miðvallarleikmanns frá Nottinghem Forest. Roy Keane fékk það hlutverk að taka við af Bryan Robson inni á miðsvæðinu og skilaði því hlutverki með miklum sóma næstu áratuginn um það bil.

Manchester United varði titil sinn í ensku úrvalsdeildinni vorið 1994 en liðið hafði haft forystuna í deildinni lungann úr leiktíðinni. Cantona var markahæsti leikmaður liðins með 25 mörk í öllum keppnum.

Þá varð liðið sömuleiðis enskur bikarmeistari árið 1994 með sannfærandi 4-0 sigri á móti Chelsesa í bikarúrslitaleiknum. Einu kaup Ferguson fyrir næsta tímabil voru miðvörðurinn David May.

Það gekk ýmislegt á leiktíðina 1994 til 1995 en Cantona var þá dæmdur í átta mánaða bann frá knattspyrnuiðkun fyrir að ráðast á stuðningsmann Crystal Palace og Blackburn Rovers hrifsaði titilinn af Manchester United.

Þá tapaði Manchester United einnig í úrslitum enska bikarsins fyrir Everton. Ljósið í myrkvinu á því tímabili var koma Andy Cole frá Newcastle United og innkoma Gary Neville, Nicky Butt og Paul Scholes inn í aðalliðið.

Endurnýjum í hópnum sem reyndust mikið heillaskref

Ferguson ákvað að hrista upp í leikmannahópi Manchester United eftir þessi vonbrigði og Paul Ince fór til Inter Milan, Mark Hughes var seldur til Chelsea og Everton keypti Andrei Kanchelskis.

Fram undan voru kynslóðaskipti í liðinu þar sem Gary Neville, Phil Neville, David Beckham, Paul Scholes og Nicky Butt tóku við keflinu hjá liðinu. Eftir tap í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 1995 til 1996 sagði sparkspekingurinn Alan Hansen að lið gætu ekki unnið titla með eintóma krakka í liði sínu.

Cantona snéri aftur á völlinn í leik gegn erkifjandanum Liverpool í október 1995. Eftir æsilega titilbaráttu við Newcastle United sem var með 12 stiga forskot á toppi deildarinnar skömmu eftir áramót náði Manchester United að tryggja sér enska meistaratitilinn með góðu lokaspretti.

Manchester United setti svo jarðarber á kökuna með því að leggja Liverpool að velli í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar og skömmu síðar framlengdi Ferguson samning sinn við félagið um fjögur ár.

Norsk innreið átti sér stað fyrir titilvörn liðsins en Ronny Johnsen bættist í varnarsveit liðsins og Ole Gunnar Solskjær bættist í framlínu liðsins. Ole Gunnar lét strax til sín taka og varð markahæsti leikmaður liðsins sem vann ensku úrvalsdeildina í fjórða skipti á fimm árum.

Þá komst Manchester United í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem Borussia Dortmund stöðvaði liðið. Kaflaskil urðu hjá Mancheser United þegar Cantona ákvað að leggja skóna á hilla og Teddy Sheringham var fenginn til þess að fylla skarð Frakkans.

Roy Keane tók við fyrirliðabandinu í kjölfar brotthvarfs Cantona og Henning Berg var fenginn í hjarta varnarinnar frá Blackburn Rovers. Til skjalanna var kominn Arsene Wenger hjá Arsenal sem átti eftir að elda grátt silfur við Ferguson.

Vorið 1998 náði Wenger að skáka Ferguson og Arsenal varð enskur meistari. Ferguson brást við þessu með því að fá til liðs við sig hollenska varnarmanninn Jaap Stam og markamaskínuna Dwight Yorke sem átti eftir að ná mjög vel saman með Andy Cole.

Ferguson var greinilega staðráðinn í að láta Wenger ekki stela sviðsljósinu og eftir að hafa misst af enska meistaratitlinum til Arsenal kom eftirminnilegasta tímabilið í stjórnartíð skoska knattspyrnustjórans hjá Manchester United.

Liðið varð þrefaldur meistari vorið 1999 en sem merki um þrautseigju og sigurvilja liðsins var sigur gegn Liverpool í fjórðu umferð enska bikarsins þar sem Solskjær skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

Glæsilegt sigurmark Ryan Giggs í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar kryddaði tímabilið sem endaði með sigri í ensku úrvalsdeildinni, enska bikarnum og Meistaradeild Evrópu.

Manchester United var svo tveimur mörkum undir samanlagt þegar liðið mætti Juventus í Tórínó í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Roy Keane skallaði þá inn fyrirgjöf David Beckham og framherjaparið Yorke og Cole skoruðu svo sitt markið hvor og tryggðu farseðilinn í úrslitaleik keppninnar.

Bæði Keane og Paul Scholes voru i leikbanni í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en þar var liðið 1-0 undir þegar komið var fram í uppbótartíma leiksins. Teddy Sheringham jafnaði hins vegar metin og Solskjær skoraði enn eitt sigurmarkið á lokaandartökum leiksins.

Markmannsvandræði eftir að danski björninn kvaddi

Peter Schmeichel ákvað að láta gott heita hjá Manchester United eftir þetta en hann hafði verið í átta ár hjá félaginu: Ferguson þurfti þá að finna arftaka hans sem var hægara sagt en gert. Mark Bosnich varði mark Manchester United tímabilið eftir þar sem liðið varð enskur meistari með 18 stiga mun sem var þá met.

Massimo Taibi sem átti að veita Bosnich samkeppni fékk einungis fjögur tækifæri hjá liðinu en skelfileg frammistaða hans í 5-0 tapi á móti Chelesa var siðasta hálmstráið. Manchester United bætti annarri rós í hnappagatið með því að vinna Álfumótið eftir sigur á móti brasilíska liðinu Palmeiras skömmu fyrir jól .

Ferguson var ekki fullkomlega ánægður með innkomu Bosnich og fékk franska landsliðsmarkvörðinn Fabien Barthez til liðs við Manchester United frá Monaco fyrir tímabil 2000 til 2001. Þá fékk hann markaskorarann Ruud van Nistelrooy frá PSV Eindhoven í apríl árið 2001.

Manchester United varð enskur meistari þriðja árið í röð vorið 2001 en liðið varð það fjórða í sögunni til þess að ná þeim áfanga. Lífið var hins vegar ekki eintómur dans á rósum í sumarbyrjun 2001 þar sem Ferguson átti í ágreiningi við stjórn Manchester United um framtíðarstefnu félagsins. Ferguson ýjaði að því í samtali við fjölmiðil félagsins að hann myndi stökkva frá borði þegar samningur hans rennur út.

Það náðist hins vegar að róa skoska skapmanninn og kaup félagsins á Juan Sebastian Veron frá Lazio fyrir metfé hafa mögulega mildað afstöðu hans til framtíðarinnar. Það kastaðist hins vegar í kekki á milli Ferguson og Stam sem yfirgaf herbúðir Manchester United og fór til Lazio.

Franski varnarmaðurinn Laurent Blanc var fenginn til þess að leysa Stam af hólmi. Ferguson lýsti því seinna yfir í samtölum við fjölmiðla að salan á Stam væru ein af mestu mistökum hans á stjóraferlinum hjá Manchester United. Ekki gekk allt að óskum tímabilið 2001 til 2002 og um jólin 2001 var Ferguson kominn á þá skoðun að hætta.

Í kjölfar þess að Ferguson eyddi óvissu um framtíð sína í febrúar árið 2002 fór liðið á flug en það skilaði liðinu í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Arsenal varð enskur meistari og Liverpool varð í öðru sæti. Manchester United fór titlalaust sem var nýlunda á þeim bæ.

Önnur endurnýjun Ferguson á hópnum sumarið 2002

Rio Ferdinand varð dýrasti varnarmaður Bretlands þegar hann kom til Manchester United frá Leeds United sumarið 2002 en það dugði ekki til þess að snúa skútunni við. Liðið átti verstu byrjun í ensku úrvalsdeildinni í 13 ár tímabilið 2002 til 2003. Diego Forlán var fenginn til þess að aðstoða Ruud van Nistelrooy í framlínunni og Paul Scholes fékk aukið hlutverk í sóknarleik liðsins.

Þetta dugði hins vegar ekki til og Arsenal varði titil sinn og Manchester United gekk aftur í gegnum tímabil án þess að titill skilað sér í hús. Samband Ferguson og David Beckham hafði súrnað og David Beckham var seldur til Real Madrid sumarið 2003.

Salan á Beckham var hluti af miklum breytingum sem gerðar voru á leikmannahópi Manchester United sumarið 2003. Juan Sebastian Veron þótti ekki standa undir væntingum og fór til Chelsea og Fabian Barthez vék fyrir Tim Howard. Brasilíumennirnir Kleberson og Eric Djemba-Djemba áttu svo að hressa upp á miðsvæðið hjá liðinu. Þá kom bjargvætturinn frá Portúgal það sumar þegar Cristiano Ronaldo mætti til leiks.

Í desember árið 2003 gekk reiðarslag yfir Manchester United þegar Rio Ferdinand var úrskurðaður í átta mánaða bann fyrir að falla á lyfjaprófi. Fjarvera Ferdinand hafði mikil áhrif á liðið og Manchester United tókst ekki að verja titil sinn. Arsenal sem fór taplaust í gegnum það tímabil varð enskur meistar. Sigur í úrslitaleik enska bikarsins gegn Millwall vorið 2004 var hins vegar sárabót.

Wayne Rooney mætti til leiks fyrir leiktíðina 2004 til 2005 og Ronaldo hélt áfram að vaxa með hverjum leiknum sem hann spilaði. Gabriel Heinze bættis við í varnarlínuna en mikil meiðsli Ruud van Nistelrooy urðu til þess að Mancehester United varð í þriðja sæti í þriðja skipti á fjórum árum.

Þá tapaði liðið úrslitaleik ensku bikarkeppninnar fyrir Arsenal eftir vítaspyrnukeppni. Af þeim sökum kom enginn titill það tímabilið en Ferguson stýrði liðinu í 1000. skipti á þeirri leiktíð.

Undirbúningurinn fyrir leiktíðina 2005 til 2006 litaðist af deilum Ferguson við einn stærsta hluthafa Manchester United um eignarhald á verðlaunahesti. Það varð til þess að bandaríski auðjöfurinn Malcolm Glazer keypti meirihluta í félaginu.

Þau kaup mæltust illa fyrir hjá stuðningsmönnum Manchester United sem mótmæltu nýja eigendahópnum ákaft næstu mánuðina og enn í dag hefur Glazer fjölskyldan ekki heillað stuðningsmannahóp liðsins.

Ferguson ákvað að fá hollenska markvöðrinn Edwin van der Sar frá Fulham til þess að leysa markmannsvandræði liðsins og suður-kóreski miðvallvarleikmaðurinn Park Ji-sung kom frá PSV Eindhoven til þess að styrkja miðjuna hjá liðinu.

Eftir snarpar deilur milli Ferguson og Roy Keane ákvað írski skaphundurinn að fara til Celtic en farsæll ferill hans hjá Manchester United fékk þar af leiðandi snubbóttann endi í nóvember árið 2005.

Í janúarglugganum árið 2006 var vörn liðsins styrkt með kaupum á franska bakverðinum Patrice Evra og serbneska miðverðinum Nemanja Vidis. Manchester United endaði í öðru sæti í deildinni og vann enska deildarbikarinn. Eftir tímabilið ákvað Ruud van Nistelrooy að ganga til liðs við Real Madrid.

Michael Carrick var keyptur til Manchester United frá Tottenham Hotspur sumarið 2006 og fékk hann það verðuga verkefni að hætt væri að tala um að Roy Keane væri ekki lengur á svæðinu.

Liðið small saman tímabilið 2006 til 2007

Leikmannakaupin í janúar auk góðrar innkomu hjá Carrick urðu til þess að Manchest United endurheimti enska meistaratitilinn árið 2007. Nemanja Vidic og Rio Ferdinand mynduðu frábært miðvarðarpa og Patrice Evra og Gary Neville fullkomnuðu varnarlínuna.

Carric og Paul Scholes náðu vel saman inni á miðjunni og Park Ji-sung og Ryan Giggs léku vel úti á vængjunum. Þá voru Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo hreinasta martröð fyrir varnarmenn andstæðinganna.

Ferguson fagnaði 20 ára starfsafmæli sinu í nóvember árið 2006 en í desember sama ár fékk hann sænska framherjinn Henrik Larsson til liðsins á láni og seinna í þeim mánuði skoraði Ronaldo 2000. markið í stjórnartíð Skotans.

Manchester United vann sinn níunda meistaratitil í ensku úrvalsdeildinni með Ferguson á hliðarlínunni vorið 2007 en tap í bikarúrslitaleik á móti Chelsea varð til þess að hann vann ekki tvennuna í fjórða skipti hjá félaginu.

Þó nokkrar breytingar voru gerðar á leikmannahópnum fyrir næsta tímabil en Owen Hargreaves sem hafði verið lengi á ratsjá Ferguson kom frá Bayern München, Nani og Anderson bættust í hópinn og Carlos Tevez gekk til liðs við Manchester United frá West Ham United.

Leiktíðin 2007 til 2008 fór rólega af stað hjá Manchester United en komst svo í gang og Ferguson háði titilbaráttu við sinn forna fjanda Arsene Wenger hjá Arsenal. Ferguson hafði betur að þessu sinni og varð enskur meistari í tíunda skipti með leikmannahóp sem hann lét seinna hafa eftir sér að hefði verið sá besti í stjóratíð hans á Old Trafford.

Til þess að toppa tímabilið vann Manchester United svo Meistaradeild Evrópu í annað skipti undir stjórn Ferguson þegar liðið lagði Chelsea að velli eftir vítapsyrnukeppni í úrslitaleik keppninnar á blautu kvöldi í Moskvu.

Edwin van der Sar var þar hetja Manchester United þegar hann varði vítaspyrnu Nicolas Anelka og tryggði liðinu sigur í keppninni. Þetta var í þriðja sinn sem Manchester United ber sigur úr býtum í Evrópukeppni meistaraliða eða Meistaradeildinni.

Leiktíðin þar á eftir fór sömueleiðis hægt af stað hvað stigasöfnun í ensku úrvalsdeildinni varðar. Þrátt fyrir það tryggði Manchester United sér 11. titilinn á stjóraferli Ferguson í næst síðustu umferð deildarinnar.

Ferguson náði þarna þeim áfanga að verða fyrsti knattspuyrnustjórinn til þess að vinna deildina þrjú ár í röð á tveimur mismunandi tímaskeiðum. Þá jafnaði Manchester United þarna met Liverpool yfir fjölda titla í efstu deild í Englandi í sögunni með 18. meistaratitli sínum.

Í desember árið 2008 varð Manchester United fyrsta breska liðið til þess að verða heimsmeistari félagsliða og um vorið 2009 vann liðið enska deildarbikarinn með sigri gegn Tottenham Hotspur í úrslitaleik keppinnnar eftir vítaspyrnukeppni. Manchester United beið hins vegar ósigur í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Barcelona.

Náði að skáka Liverpool áður en hann hætti

Leiktíðina 2009 til 2010 varð liðið enskur deildarbikarmeistari annað árið í röð nú eftir sigur á móti Aston Villa. Manchester United mistókst aftur á móti að verja titil sinn í ensku úrvalsdeildinni þar sem Chelsea fór með sigur af hólmi.

Vorið 2011 varð Manchester United enskur meistari í 19. skipti í sögunni og tók þar af leiðandi fram úr erkifjanda sínum Liverpool. Aftur mættust Manchester United og Barcelona í úrslitum og aftur bar spænska liðið sigur úr býtum.

Reyndir leikmenn lögðu skóna á hilluna eftir tímabilið 2010 til 2011 en Edwin van der Sar, Gary Neville og Paul Scholes ákváðu að binda endi á leikmannaferla sína. Ferguson fór út á leikmannamarkaðinn og náði í David de Gea frá Atlético Madrid, Phil Jones frá Blackburn Robersm Ashley Young frá Aston Villa til þess að bregðast við því.

Manchester City varð enskur meistari í fyrsta skipti vorið 2012 en Manchester United fékk jafn mörg stig það tímabilið og barátta nágrannaliðanna réðist á markatölu. Til þess að aðstðoa Manchester United við að laga markatölu sínu nældi Ferguson í hollenska framherjann Robin van Persie frá Arsenal.

Kvaddi Manchester United með viðeigandi hætti

Ferguson tilkynnti það í upphafi maimánaðar árið 2013 að hann hyggðist láta af stöfum sem knattspyrnustjóri félagsins undir lok yfirstandandi leiktíðar. Hann kvaddi Manchester United með viðeigandi hætti með því að verða enskur meistari í 20. skipti í sögu félagsins.

Það er óhætt að segja að liðið hafi orðið meistari á sannfærandi hátt en eftir sigur gegn Aston Villa var titilinn í höfn þegar fjórar umferðir voru eftir af deildinni. Van Persie skoraði öll mörk Manchester United í þeim leik en hann stóð að lokum uppi sem markahæsti leikmaður deildarinnar þá leiktíðina.

Þá leiktíðina stýrði Ferguson liðinu í 1000. deildarleik sínum og síðasta lekur hans við sjtórnvölinn var sá 1500. í öllum keppnum. Auk þess vann Manchester United 100. leikinn sinn í Meistaradeildinni með Ferguson í brúnni.