Mick Schumacher, vara­öku­maður Mercedes í For­múlu 1 mun einnig vera vara­öku­maður McLaren fyrir komandi tíma­bil í móta­röðinni. Frá þessu var greint í gær eftir að liðin höfðu komist að sam­komu­lagi.

Mick er sonur For­múlu 1 goð­sagnarinnar Michael Schumacher, sem varð á sínum ferli sjö­faldur heims­meistari í móta­röðinni. Mick á að baki tvö heil tíma­bil í móta­röðinni en var látinn fara frá Haas eftir síðasta tíma­bil.

Mercedes sá eitt­hvað í Þjóð­verjanum unga og á­kvað að semja við hann um að gerast vara­öku­maður liðsins fyrir komandi tíma­bil, líkurnar á því að á­huga­fólk um For­múlu 1 fengi að sjá Schumacher keppa á næsta tíma­bili jukust svo að­eins þegar að McLaren til­kynnti um sam­starfið við Þjóð­verjann.

Schumacher er 23 ára gamall og hefur þrátt fyrir unga aldur marga fjöruna sopið í mótor­sport heiminum. Meðal annars í undir­móta­röð For­múlu 1, For­múlu 2, þar sem hann á sínum tíma varð meistari. Hann er upp­alinn í akademíu Ferrari, liðsins þar sem að faðir hans sló í gegn á sínum tíma.

Ferrari tók hins vegar á­kvörðun um að fram­lengja ekki samning sinn við Schumacher á síðasta tíma­bili en honum tókst, enn á ný, að feta í fót­spor föður síns með því að semja við Mercedes því það er lið sem Michael ók einnig fyrir á sínum ferli.

Með nýjustu vendingunum, þar sem að Mick er orðinn öku­maður hjá McLaren, er hann samt sem áður að koma með skemmti­legan snúning á söguna.

McLaren og Ferrari eiga sér langa sögu saman í For­múlu 1 og hefur bar­áttan á milli þessara liða oft á tíðum verið svaka­leg og náði há­punkti með bar­áttu Mika Hakkinen og Michael Schumacher um heims­meistara­titla.