Mick Schumacher, varaökumaður Mercedes í Formúlu 1 mun einnig vera varaökumaður McLaren fyrir komandi tímabil í mótaröðinni. Frá þessu var greint í gær eftir að liðin höfðu komist að samkomulagi.
Mick er sonur Formúlu 1 goðsagnarinnar Michael Schumacher, sem varð á sínum ferli sjöfaldur heimsmeistari í mótaröðinni. Mick á að baki tvö heil tímabil í mótaröðinni en var látinn fara frá Haas eftir síðasta tímabil.
Mercedes sá eitthvað í Þjóðverjanum unga og ákvað að semja við hann um að gerast varaökumaður liðsins fyrir komandi tímabil, líkurnar á því að áhugafólk um Formúlu 1 fengi að sjá Schumacher keppa á næsta tímabili jukust svo aðeins þegar að McLaren tilkynnti um samstarfið við Þjóðverjann.
Schumacher er 23 ára gamall og hefur þrátt fyrir unga aldur marga fjöruna sopið í mótorsport heiminum. Meðal annars í undirmótaröð Formúlu 1, Formúlu 2, þar sem hann á sínum tíma varð meistari. Hann er uppalinn í akademíu Ferrari, liðsins þar sem að faðir hans sló í gegn á sínum tíma.
Ferrari tók hins vegar ákvörðun um að framlengja ekki samning sinn við Schumacher á síðasta tímabili en honum tókst, enn á ný, að feta í fótspor föður síns með því að semja við Mercedes því það er lið sem Michael ók einnig fyrir á sínum ferli.
Með nýjustu vendingunum, þar sem að Mick er orðinn ökumaður hjá McLaren, er hann samt sem áður að koma með skemmtilegan snúning á söguna.
McLaren og Ferrari eiga sér langa sögu saman í Formúlu 1 og hefur baráttan á milli þessara liða oft á tíðum verið svakaleg og náði hápunkti með baráttu Mika Hakkinen og Michael Schumacher um heimsmeistaratitla.
McLaren will be able to call on @SchumacherMick as a reserve driver during the 2023 F1 season as part of our arrangement with Mercedes. Welcome to the family, Mick. 👊🧡 pic.twitter.com/DNiJ5s99rQ
— McLaren (@McLarenF1) February 1, 2023