Sig­fús Sigurðs­son, silfur­drengur frá Ólympíu­leikunum 2008 í Peking, telur það skorta hjá leik­mönnum ís­lenska lands­liðsins í hand­bolta að þeir opni á sér munninn og tali um það sem betur mætti fara í varnar­leik liðsins við Guð­mund Guð­munds­son, lands­liðs­þjálfara Ís­lands.

Frá þessu greindi Sig­fús í hlað­varps­þættinum Hand­kastið í gær­kvöldi.

Ís­land leikur afar mikil­vægan leik gegn Svíum í milli­riðlum á morgun. Svíar hafa ekki tapað leik hingað til, eru á heima­velli og til alls lík­legir á meðan að sigur fyrir Ís­land gæti fleytt liðinu ansi langt.

Sig­fús, var á sínum tíma lykil­maður í varnar­leik ís­lenska lands­liðsins og hann hefur á­hyggjur af varnar­leik ís­lenska lands­liðsins á yfir­standandi heims­meistara­móti.

„Við sáum það nú á móti Ung­verjum, þegar að við spiluðum á mót liði sem gat spilað vel inn á línu, opnað fyrir hornin og með leik­menn sem geta skotið fyrir utan að vörnin okkar var að lenda í gríðar­legum vand­ræðum.“

Honum finnst eins og það vanti plan B.

„Að brjóta leikinn að­eins upp þegar að vörnin er ekki að ganga. Miðað við það hvernig Svíarnir spila og geta skotið tel ég okkur geta lent í gríðar­legum vand­ræðum með þá. Þú ert ekki að fara vinna Svíana ef þeir skora á þig 30 mörk.“

Sig­fús upp­lifir stöðu lands­liðsins eins og að það vanti á­kveðin sam­skipti í vörninni.

„Sem og kjöt á suma leik­menn þarna sem geta mætt á svæðið og brotið á mönnum. Þá er það spurning, þegar að þú ert með leik­menn sem eru minni og léttari, hvort þú eigir ekki að breyta um vörn og fara kannski í 5-1 eða 3-2-1 vörn.“

Arnar Daði, um­sjónar­maður Hand­kastins, var þá fljótur að benda á þá stað­reynd að Guð­mundur Guð­munds­son, lands­liðs­þjálfari Ís­lands hafi ekki verið þekktur fyrir það að breyta vörn síns liðs á undan­förnum stór­mótum.

„Það er þá líka kannski af því leik­menn opna ekki munninn á sér og tala um það,“ Sig­fús þá og fékk í kjöl­farið spurningu frá Arnari hvort hann teldi að sú væri staðan hjá lands­liðinu.

Að leik­menn þyrðu ekki að opna á sér munninn í sam­skiptum sínum við Guð­mund og ræða það sem betur mætti fara.

„Já það er mögu­leiki á því,“ svaraði Sig­fús og nefndi dæmi frá Ólympíu­leikunum 2008 þar sem hann og lands­lið Ís­lands unnu til silfur­verð­launa.

„Þar var þetta stór sam­vinna og að miklu leiti leik­menn sem breyttu varnar­leiknum fyrir leikinn gegn Pól­verjum og svo á­herslu­breytingar fyrir leikinn gegn Spán­verjum í undan­úr­slitum.

Það er eins og þetta vanti í hópinn, að leik­menn opni á sér munninn og segi: 'heyrðu mér þykir þetta ó­þægi­legt, mér þykir ekki gott að spila þessa stöðu'“

Leikur Ís­lands og Sví­þjóðar fer fram á morgun og hefst klukkan 19:30. Svíar verða á heima­velli en spilað verður í Gauta­borg.