Sigfús Sigurðsson, silfurdrengur frá Ólympíuleikunum 2008 í Peking, telur það skorta hjá leikmönnum íslenska landsliðsins í handbolta að þeir opni á sér munninn og tali um það sem betur mætti fara í varnarleik liðsins við Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara Íslands.
Frá þessu greindi Sigfús í hlaðvarpsþættinum Handkastið í gærkvöldi.
Ísland leikur afar mikilvægan leik gegn Svíum í milliriðlum á morgun. Svíar hafa ekki tapað leik hingað til, eru á heimavelli og til alls líklegir á meðan að sigur fyrir Ísland gæti fleytt liðinu ansi langt.
Sigfús, var á sínum tíma lykilmaður í varnarleik íslenska landsliðsins og hann hefur áhyggjur af varnarleik íslenska landsliðsins á yfirstandandi heimsmeistaramóti.
„Við sáum það nú á móti Ungverjum, þegar að við spiluðum á mót liði sem gat spilað vel inn á línu, opnað fyrir hornin og með leikmenn sem geta skotið fyrir utan að vörnin okkar var að lenda í gríðarlegum vandræðum.“
Honum finnst eins og það vanti plan B.
„Að brjóta leikinn aðeins upp þegar að vörnin er ekki að ganga. Miðað við það hvernig Svíarnir spila og geta skotið tel ég okkur geta lent í gríðarlegum vandræðum með þá. Þú ert ekki að fara vinna Svíana ef þeir skora á þig 30 mörk.“
Sigfús upplifir stöðu landsliðsins eins og að það vanti ákveðin samskipti í vörninni.
„Sem og kjöt á suma leikmenn þarna sem geta mætt á svæðið og brotið á mönnum. Þá er það spurning, þegar að þú ert með leikmenn sem eru minni og léttari, hvort þú eigir ekki að breyta um vörn og fara kannski í 5-1 eða 3-2-1 vörn.“
Arnar Daði, umsjónarmaður Handkastins, var þá fljótur að benda á þá staðreynd að Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands hafi ekki verið þekktur fyrir það að breyta vörn síns liðs á undanförnum stórmótum.
„Það er þá líka kannski af því leikmenn opna ekki munninn á sér og tala um það,“ Sigfús þá og fékk í kjölfarið spurningu frá Arnari hvort hann teldi að sú væri staðan hjá landsliðinu.
Að leikmenn þyrðu ekki að opna á sér munninn í samskiptum sínum við Guðmund og ræða það sem betur mætti fara.
„Já það er möguleiki á því,“ svaraði Sigfús og nefndi dæmi frá Ólympíuleikunum 2008 þar sem hann og landslið Íslands unnu til silfurverðlauna.
„Þar var þetta stór samvinna og að miklu leiti leikmenn sem breyttu varnarleiknum fyrir leikinn gegn Pólverjum og svo áherslubreytingar fyrir leikinn gegn Spánverjum í undanúrslitum.
Það er eins og þetta vanti í hópinn, að leikmenn opni á sér munninn og segi: 'heyrðu mér þykir þetta óþægilegt, mér þykir ekki gott að spila þessa stöðu'“
Leikur Íslands og Svíþjóðar fer fram á morgun og hefst klukkan 19:30. Svíar verða á heimavelli en spilað verður í Gautaborg.