Hún hverfur seint úr minni Íslendinga minningin frá fyrsta leik íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á HM í Rússlandi þegar að liðið lék gegn Argentínu í sínum fyrsta leik í lokakeppni HM. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og þar gerði Hannes Þór Halldórsson, þáverandi landsliðsmarkvörður Íslands sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu frá einum besta knattspyrnumanni sögunnar, Lionel Messi.

Það má með sanni segja að argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi hafi átt betri daga á sínum knattspyrnuferli en með núverandi félagsliði sínu PSG í Frakklandi sem hann gekk til liðs við frá Barcelona fyrir yfirstandandi tímabil.

Þá má velta því fyrir sér hvort hugurinn hjá honum hafi reikað aftur til leiksins gegn Íslandi á HM í Rússlandi árið 2018 þegar að hann steig á vítapunktinn á ný á Íþrótta- og ólympíusafninu í Doha. Það var hins vegar enginn Hannes Þór Halldórsson í markinu heldur vélmenni. Niðurstaðan varð hins vegar sú sama og Messi þurfti að játa sig sigraðan enn á ný eftir vítaspyrnu.