Fjórar sviðsmyndir koma til greina um endurnýjun Laugardalsvallar. Að aðstaða verði að mestu leyti óbreytt eða með lágmarksbreytingum og lagfæringum. Að farið verði í viðbætur og framkvæmdir á núverandi aðstöðu til að uppfylla alþjóðlega staðla. Að byggður verði opinn knattspyrnuvöllur með allt að 17.500 sæti eða fjölnotaleikvangur með opnanlegu þaki með allt að 20.000 sæti.

Í byrjun mánaðarins var útboð á ráðgjafarþjónustu fyrir Þjóðarleikvang ehf., sem hefur það hlutverk að undirbúa lokaákvörðun um endurnýjun á Laugardalsvelli og er í eigu Reykjavíkurborgar, ríkis og KSÍ, auglýst meðal annars á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmið útboðsins er að leita tilboða í ráðgjöf um kostnaðar- og tekjumat þessara fjögurra sviðsmynda.

Í útboðsgögnunum má finna skýrslu frá Verkís þar sem vellir eru bornir saman við hugmyndir um annars vegar 17 þúsund manna völl og hins vegar 20 þúsund manna völl sem er með opnanlegu þaki. Í skýrslunni er gert ráð fyrir því að frjálsíþróttabrautin fari eins og austurstúkan, leikvöllurinn fari nær vestari stúkunni og spilað verði á náttúrulegu grasi.

Verkís gerir ráð fyrir að stofnkostnaður við 17 þúsund manna völlinn sé um fimm milljarðar. Fyrirtækið skoðaði þrjá velli, Spardabank Hessen í Þýskalandi, Gamla Ullevi í Svíþjóð og Groupama Arena í Búdapest.

Þegar vellir með opnanlegu þaki voru skoðaðir voru fimm vellir til athugunar. Þrír sem voru eldri en 14 ára og því voru tveir nýrri líka skoðaðir. Gelredome í Hollandi, Veltins Arena heimavöllur Schalke og Esprit Arena í Düsseldorf í Þýskalandi voru fyrst skoðaðir en svo skoðaði fyrirtækið Tele 2 og Friends arena í Svíþjóð þar sem þeir voru nýrri af nálinni.

Áður en útboðið var auglýst fór fram forútboð í nóvember á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem aflað var upplýsinga um áhuga og reynslu aðila af ráðgjöf um kostnaðar- og tekjumat á sviði byggingar og rekstrar fótboltaleikvanga. Alls skiluðu þrettán aðilar inn gögnum, þar af nokkur öflug alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki með mikla reynslu. Í framhaldinu var lögð áhersla á að draga saman allar þær ábendingar sem frá þessum aðilum bárust og nýta við undirbúning útboðsins sem auglýst var nú.

Auk þessara fjögurra sviðsmynda er óskað sérstaklega eftir umfjöllun í skýrslu ráðgjafa um meðal annars nýtingu vesturstúkunnar á vellinum, hvort notað verði náttúrulegt gras eða gervigras, kostnaður við útlit og skel utan um leikvanginn, fyrirkomulag við móttökurými og móttökuherbergi.

Frestur til að skila inn tilboði er ríflega fjórar vikur og mun honum ljúka í byrjun mars. Þá verður farið í að meta tilboðin í samræmi við matslíkan útboðsgagna og í framhaldinu verður gengið til samningagerðar við þann aðila sem á hagkvæmasta tilboðið. Reikna má með að ráðgjafar geti hafið sína vinnu í lok mars og gera má ráð fyrir að gefinn verði þriggja mánaða tími til vinnslunnar.

Þannig má gera ráð fyrir því að endanleg skýrsla liggi fyrir í júní/júlí.

Sparda-Bank-Hessen í Þýskalandi tekur 20.500 áhorfendur, kostaði 23 milljónir evra eða 3,1 milljarð.
Gamli Ullevi-völlurinn tekur 15 þúsund manns. Hann kostaði 335 sænskar milljónir eða 4,3 milljarða.
Friends arena í Svíþjóð tekur 50 þúsund áhorfendur og kostaði 300 milljónir evra eða 41 milljarð króna.
Tele2 Arena í Svíþjóð tekur 33 þúsund áhorfendur og kostaði 290 milljónir evra eða 40 milljarða.
Esprit Arena tekur 51 þúsund áhorfendur og kostaði 218 milljónir evra eða rúman 31 milljarð króna.
Groupama Arena tekur 22 þúsund áhorfendur og kostaði 40 milljónir evra eða aðeins 5,5 milljarða.
Gelredome í Hollandi tekur 22 þúsund áhorfendur og kostaði 191 milljón evra eða 26,5 milljarða.
Veltins-Arena í Þýskalandi tekur 54.700 áhorfendur og kostaði 191 milljón evra eða 26,5 milljarða.