„Það er auðvitað margt sem spilar inn í, það hafa ekki margir Íslendingar farið ungir út til Ítalíu en velgengni Andra Fannars á stuttum tíma hefur vakið athygli og þá líta menn í sömu átt,“ segir Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður á skrifstofu Stellar Nordic, aðspurður hvernig megi útskýra skyndilegan áhuga ítalskra knattspyrnuliða á íslenskum ungstirnum.

Hinn átján ára gamli Andri Fannar varð fyrr á þessu ári sjötti Íslendingurinn til að leika í efstu deild á Ítalíu fyrir hönd Bologna og er elstur fjögurra Íslendinga hjá félaginu.

Félagið gekk frá kaupunum á Ara Sigurpálssyni fyrr á þessu ári og fékk Hlyn Frey Karlsson og Gísla Gotta Þórðarson á láni frá Breiðablik, fyrr í þessum mánuði.

„Áður fyrr hefur Ítalía ekki verið stór markaður fyrir Íslendinga. Hvað olli því veit ég ekki, en þetta er að breytast. Íslendingar eru duglegir, aðlagast vel og læra tungumálið þar sem þeir eru. Svo held ég að flestir taki undir það að íslenskir leikmenn eru liðsmenn, en ekki einstaklingsmiðaðir og það heillar. Ég á von á því að fleiri lið horfi til Íslands núna þegar þau sjá velgengni Norðurlandarbúa í deildinni.“

Albert Guðmundsson varð fyrsti Íslendingurinn til að leika í efstu deild ítalska boltans árið 1948. Birkir Bjarnason á að baki 51 leik í efstu deild á Ítalíu og Hörður Björgvin Magnússon tólf leiki, en Emil Hallfreðsson hefur verið í sérflokki á þeim báti með 178 leiki í Serie A.

Andri hefur á stuttum tíma í Serie A mætt liðum á borð við Inter, AC Milan, Napoli, Lazio og Fiorentina
fréttablaðið/getty

Bologna er með fjóra efnilega Íslendinga á sínum snærum og þrír þeirra ættu að sjá fyrir sér leið inn í aðalliðið eftir velgengi Andra Fannars.

„Bologna finnst það hafa fengið mikið fyrir peninginn í tilviki Andra Fannars og hefur því leitað á sama markað. Eitt leiðir af öðru og þetta styrkir trú þeirra á leikmönnum frá landinu, líkt og sænska félagið Norrköping sem hefur undanfarin ár sótt á íslenskan markað með góðum árangri.“

Að mati Magnúsar er Ítalía spennandi áfangastaður fyrir unga og efnilega leikmenn, en hér hefur helst tíðkast að leikmenn fari til Englands, Hollands og Skandinavíu.

„Akedemíurnar þarna eru öflugar og strákarnir sjá að það er möguleiki að ná lengra með því að fara út, sérstaklega þegar það virðist vera leið inn í aðalliðin. Svo læra þeir að vera atvinnumenn og standa á eigin fótum. Ef þú stendur þig vel á Ítalíu kemstu á radarinn hjá sterkustu deildum heims, en ef hlutirnir ganga ekki upp í akademíu hjá liði í efstu deild ítalska boltans, er mjög líklegt að lið í Serie B hafi áhuga og lið í Skandinavíu.“

Andri lék fyrsta A-landsliðsleik sinn fyrr á þessu ári.
fréttablaðið/anton

Aðspurður út í Andra Fannar, sagði Magnús að hann hefði gripið tækifærið með báðum höndum þegar það gafst.

„Það var fram úr björtustu vonum að honum tókst að brjótast inn í aðalliðið á síðasta tímabili. Í knattspyrnu þarf maður að vera réttur maður á réttum stað. Hann komst í leikmannahópinn, stendur sig vel á æfingum og fékk tækifærið sem hann nýtti til hins ýtrasta. Það getur orðið dýrt ef illa gengur og leikmaður fær aðeins eitt tækifæri, en honum tókst að nýta það mjög vel.“

Í Serie B, næstefstu deild, eru Birkir og Hólmbert Aron Friðjónsson hjá Brescia, Óttar Magnús Karlsson og Bjarki Steinn Bjarkason hjá Venezia og Mikael Egill Ellertsson hjá SPAL. Þá er Sveinn Aron Guðjohnsen á láni hjá OB í Danmörku frá Spezia sem komst upp í Serie A fyrr á þessu ári.