Aron Guðmundsson
Sunnudagur 27. nóvember 2022
09.00 GMT

Drama, há­hraði, spenna, skemmtun, ó­trú­leg mis­tök og glæstir sigrar, eru orð sem koma upp í hugann þegar maður lætur hugann reika yfir­tíma­bilið, en eitt er víst og það er að For­múla 1 hefur skipað sér sess meðal á­huga­verðustu og skemmti­legustu í­þrótta í heimi.
Hér er farið yfir það mark­verðasta frá tíma­bilinu.

Niður­staða ársins: Vel heppnuð frum­sýning

For­múla 1 hefur stigið gæfu­spor með nýrri kyn­slóð bíla. Það hefði verið ó­sann­gjarnt af okkur að biðja um sömu spennu og boðið var upp á á síðasta tíma­bili, en tíma­bilið í heild sinni hefur verið mjög gott. Niður­staðan er sú að næsta tíma­bil í For­múlu 1 hefur alla burði til þess að geta farið í sögu­bækurnar af góðum á­stæðum.

Þrjú lið standa framar öðrum og eru lík­leg til þess að blanda sér í bar­áttuna um titlana sem í boði eru. Okkur dreymir um slag milli Red Bull, Ferrari og Mercedes, vonum að það verði að veru­leika því það verður allt lagt í sölurnar.

Fréttablaðið/GettyImages

Keppni ársins: Sil­ver­stone

Yfir­burðir Ver­stappen á Red Bull-bílnum ollu því að oft og tíðum var ekki mikil spenna um sigur í keppnum, en í Sil­ver­stone-kapp­akstrinum í Bret­landi var boðið upp á mikla skemmtun þar sem Car­los Sainz, öku­maður Ferrari, vann sinn fyrsta sigur á ferlinum. Öryggis­bíll var kallaður út undir lok keppninnar, það þjappaði hópnum saman og úr varð æsi­spennandi loka­kafli úti um alla braut.

Fréttablaðið/GettyImages

Von­brigði ársins: Mercedes og Ferrari

Tvennt sem stendur upp úr hér. Sú stað­reynd að Mercedes var aldrei í bar­áttu um heims­meistara­titla, og af­hroð Ferrari trekk í trekk. Höldum okkur við Ferrari hér. Liðið virtist hafa neglt blönduna fyrir nýja kyn­slóð For­múlu 1 bíla, byrjaði tíma­bilið vel með hraðan bíl, en gerði allt of mörg mis­tök og kom sér allt of oft í vonda stöðu. Þegar Ferrari gengur vel, þá eykur það á­huga á For­múlu 1. Vonandi verður það stað­reyndin á næsta ári.

Fréttablaðið/GettyImages

Kveðju­stund ársins: Sebastian Vet­tel

Fjór­faldi heims­meistarinn Sebastian Vet­tel hefur yfir­gefið For­múlu 1 sviðið og
kveður sem goð­sögn í móta­röðinni. Vet­tel verður einna helst minnst fyrir ó­trú­lega sigur­göngu sína með Red Bull, en einnig fyrir að reyna slíkt hið sama með Ferrari. Þá er það virðingar­vert hvernig hann hefur nýtt sér stöðu sína sem heims­frægur öku­maður til þess að vekja at­hygli á brýnum mál­efnum utan For­múlu 1. Dan­ke, Seb!

Fréttablaðið/GettyImages

Stað­reynd ársins: Sigur­laus Hamilton

Tíma­bilið 2022 fer í sögu­bækurnar sem fyrsta tíma­bil Sir Lewis Hamilton í For­múlu 1 þar sem honum tekst ekki að vinna keppni. Hamilton hóf For­múlu 1 feril sinn árið 2007. Þessi sjö­faldi heims­meistari gekk í gegnum for­dæma­laust tíma­bil í ár, þar sem bíll Mercedes reyndist ekki sam­keppnis­hæfur fremst í rás­röðinni fyrr en undir lok árs.

Fréttablaðið/GettyImages

Öku­maður ársins: Max Ver­stappen

Það er ekki hægt að líta fram hjá Max Ver­stappen í þessum flokki. Hollendingurinn var í sér­flokki í ár, setti met yfir fjölda sigra á einu tíma­bili (15) og tryggði sér sinn annan heims­meistara­titil á ferlinum. Hann er maðurinn sem setur markið hátt fyrir aðra öku­menn mótaraðarinnar.

Fréttablaðið/GettyImages
Athugasemdir