Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir að fyrsta ungmennaþing KSÍ, sem var haldið í dag, hafi gengið vonum framar. Markmið þingsins var að gefa íslenskum ungmennum í fótbolta rödd innan KSÍ með stofnun ungmennaráðs.

„Þetta er í rauninni eitt af því fyrsta sem ég ræddi um þegar ég tók við sem formaður, að mér fyndist stærsti hópurinn af hreyfingunni ekki hafa rödd eða formlega aðferð til að hafa áhrif,“ segir Vanda. „Ég vildi bæta úr því.“

Fulltrúar á ungmennaþinginu ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta.
Mynd/Aðsend

Vanda segir að um sextíu krakkar á aldrinum tólf til átján ára frá rúmlega tuttugu félögum KSÍ af öllu landinu hafi komið á ungmennaþingið. Þingið hófst klukkan tíu í morgun og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var þar meðal gesta sem fluttu ávörp.

„Hann óskaði okkur til hamingju og þakkaði krökkunum fyrir að taka þátt og vera frábær,“ segir Vanda. „Hann sagði að margt væri vel gert. Svo talaði hann líka um það sem hann hefur rætt áður opinberlega, um kvíða og pressu og hegðun foreldra og fullorðna fólksins á mótum hjá krökkum. Að við fullorðna fólkið yrðum að passa okkur að hegða okkur ekki illa gagnvart börnunum.“

Fulltrúar í hugmyndavinnu á ungmennaþingi KSÍ.
Mynd/Aðsend

Vanda segir að landsliðsfólk hafi mætt á þingið. Svo hafi farið fram hópavinna og hópaumræður um ýmsar hugmyndir ungmennanna. „Þau ræddu um alls konar mál sem snúa að mótafyrirkomulaginu. Til dæmis tillögu um að innleiða lotukerfi í annan flokk, ábendingar til dómara og til foreldra um það hvernig þau ættu að haga sér á mótun.“

„Í mínum huga hegða langflestir sér vel á mótum hjá krökkum en inn á milli gerast hlutir þar sem foreldrar missa sig aðeins á völlum,“ segir Vanda. „Krakkarnir töluðu líka um bílferðirnar heim og hvernig foreldrar ættu að hegða sér á leiðinni heim, að vera hvetjandi í stað þess að skamma. Ég er ótrúlega stolt af þessum fótboltakrökkum sem sátu við í allan dag og sögðu okkur hvað þeim þykir mikilvægt í hreyfingunni.“

Vanda segir að nítján krakkar hafi boðið sig fram í nýja ungmennaráðið. „Þau munu funda reglulega og ég hugsa að við stefnum á að halda svona ungmennaþing á hverju ári. Því okkur er alvara í að hlusta á þau og veita þeim rödd. Þetta er stærsti hlutinn í hreyfingunni og við viljum hafa þau með í ráðum.“