Áskorendamótaröðin í golfi er með upphitun fyrir tímabilið sem hefst síðar í þessum mánuði þar sem þeir fjalla meðal annars um íslenska kylfinginn Harald Franklín Magnús.

Haraldur verður annar tveggja íslenskra kylfinga á mótaröðinni í ár ásamt Guðmundi Ágústi Kristjánssyni en báðir leika þeir fyrir hönd GR og komust á mótaröðina í gegnum árangur á Ecco Nordic mótaröðinni.

Haraldur endaði meðal fimm efstu á skandinavísku mótaröðinni í fyrra sem tryggði honum takmarkaðan keppnisrétt.

„Haraldur Magnús mun reyna að verða annar Íslendingurinn til að vinna mót á Áskorendamótaröðinni þegar hann hefur tímabil sitt í Suður-Afríku síðar í þessum mánuði. Hann sýndi sig og sannaði á sterku tímabili í skandinavísku mótaröðinni í fyrra og tryggði sér þátttökurétt með því að lenda fjórum sinnum í öðru sæti og fjórum sinnum til viðbótar meðal fimm efstu,“ segir í umfjölluninni og heldur áfram:

„Hinn 28 ára gamli Haraldur hefur einu sinni tekið þátt í Áskorendamótaröðinni en hefur þegar tekið þátt í einum af risamótunum eftir að hafa tryggt sér þátttökurétt á 147. Opna breska meistaramótinu.“