Enska úrvalsdeildin fór af stað í gærkvöldi og veisluhöldin halda áfram í dag þar sem lið á borð við Liverpool, Tottenham og Chelsea mæta til leiks.

Alls eru sex leikir á dagskrá í dag yfir allan daginn og því má gera ráð fyrir því að margur knattspyrnuáhugamaðurinn sitji límdur fyrir framan sjónvarpsskjáinn.

Herlegheitin hefjast klukkan 11:30 með leik nýliða Fulham og Liverpool á Craven Cottage. Fulham mættir aftur í deild þeirra bestu á meðan að Liverpool vonast til að hefja tímabilið á góðum nótum og stimpla sig strax inn í titilbaráttu.

Klukkan 14:00 eru síðan fjórir leikir á dagskrá. Nýliðar Bournemouth taka á móti Steven Gerrard og lærisveinum hans í Aston Villa. Þá tekur Leeds United á móti Wolves og Newcastle United fær nýliða Nottingham Forest í heimsókn á St. James' Park. Tottenahm tekur síðan á móti Southampton.

Lokaleikur dagsins er síðan viðureign Everton og Chelsea en sá leikur fer fram á Goodison Park og hefst klukkan 16:30.