Tilkynningin um Ofurdeildina hefur snúið fótboltaheiminum eins og hann leggur sig á hvolf. Þótt margt sé enn óljóst um hvort og hvernig Ofurdeildin mun fara af stað eru margir stuðningsmenn stofnliða deildarinnar allt annað en sáttir. Mörgum finnst liðin hafa svikið stuðningsmenn sína og fótbolta sem íþrótt. Sumir hafa farið svo langt að segja að þeir muni ekki styðja félögin lengur. Fyrir þá sem hyggjast standast við stóru orðin eru nokkrar hugmyndir um hvert skal leita að nýju félagi.

Liverpool

Stuðningsmenn Liverpool hafa margir hverjir verið jafnhrifnir af borginni sem félagið er kennt við og klúbbnum sjálfum. Þeim sem annt er um Bítlaborgina myndu því eðlilega leitast eftir að styðja önnur félög á svæðinu en flestir myndu þó frekar drekkja sér í ánni Mersey frekar en styðja við fagurbláa fjandmenn sína í Everton. Blessunarlega er þó annar valkostur á svæðinu og má vænta þess að treyjusala Tranmere Rovers rjúki upp á næstu dögum.

Aðrir hafa ef til vill sótt í félagið sökum glæstrar sögu þess. Þeir myndu falla vel í kramið hjá sögulegu stórveldi Nottingham Forest sem eru rauðklæddir í þokkabót. Þá eru auðvitað einhverjir sem elska ekkert meira en að góla You‘ll Never Walk Alone við minnsta tækifæri. Treysti þeir sér norður til Skotlands munu þeir finna samastað með stuðningsmönnum Celtic sem hafa einnig tileinkað sér þetta misvinsæla hetjukvæði.

Rétt eins og í Liverpool gera stuðningsmenn Celtic öðrum lífið leitt með því að góla You'll Never Walk Alone í tíma og ótíma.

Manchester United

Ástæður stuðningsmanna Manchest United fyrir að styðja við klúbbinn eru margar, hvort sem þær séu siðprýði Eric Cantona eða strípurnar í hári David Beckham. Flestir vita þó að stærsta goðsögn félagsins frá upphafi sinnti hlutverki sínu ekki á vellinum heldur frá hliðarlínunum og margir drógust að félaginu vegna þessarar ómældu leiðtogahæfni. Síðan hann lét af þjálfarastörfum hefur engum tekist að fylla gríðarstórt skarðið sem David Moyes skildi eftir sig og hafa eflaust margir orðið afhuga Manchester United í kjölfarið.

Það liggur því beint við að Manchester United mönnum sem ofbauð þátttaka klúbbsins í Ofurdeildinni fylki liði til West Ham þar sem Moyes er nú vil stjórnvölinn. Hugmyndir um að stofnlið Ofurdeildarinnar verði felld úr ensku úrvalsdeildinni verða sífellt raunverulegri og því er ekki útilokað að West Ham komi öllum á óvart og vinni deildina í ár. Það er aldrei að vita hversu hátt Moyes getur flogið þegar Old Trafford akkerið heldur honum ekki niðri.

Söknuður United manna á David Moyes mun eflaust fleyta þeim beint á Ólympíuleikvanginn.
Getty

Manchester City

Ólíkt fjendum sínum í United er stórveldi Manchester City tiltölulega nýtt af nálinni. Áður en auðkýfingurinn Sheikh Mansour keypti liðið og hóf að dæla peningum í það státuðu City sig af því að vera klúbbur fólksins í borginni, þrátt fyrir yfirganginn í nágrönnum sínum. Stuðningsmenn City sem vilja hverfa aftur í þessa stemmningu gætu því leitað hælis hjá Everton sem hafa lengi pirrað sig á háværu systkni.

Það eru þó auðvitað einhverjir sem heilluðust af velgengni liðsins á undanförnum árum og líklega samanstendur þorri stuðningsmanna City í dag af ungu fólki sem er meira fyrir flottan fótbolta en eitthvað þras um glataðan dýrðarljóma. Þá er ágætt að veðja á lið með ríka eigendur sem eru til þess vísir að láta til skarar skríða á næstu árum á borð við Queen‘s Park Rangers og Stoke City.

Tottenham Hotspur

Þrátt fyrir að hafa lengi haft alla burði til að skara fram úr veldur Tottenham stuðningsmönnum sínum iðulega vonbrigðum. Fyrir þá sem eru komnir með nóg af síendurteknum antíklímax væri ef til vill ráð að flýja norður til Leicester sem vinna vel úr því sem þeir hafa. Aðrir hafa þó eflaust fundið einhvers konar ró í því að vinna aldrei neitt og geta því farið að skoða aðrar vonbrigðaverksmiðjur á borð við Aston Villa, Everton og Newcastle.

Þá hafa eflaust einhverjir flykkst til White Hart Lane út af fögrum hananum sem prýðir merki félagsins. Fuglaskoðunarfólk sem er ósátt með stöðu Tottenham getur því skoðað örninn hjá Crystal Palace, kanarífugl Norwich City eða ugluna hjá Sheffield Wednesday.

Hvert fara Tottenham menn næst?

Chelsea

Á Íslandi má rekja ættir margra stuðningsmanna Chelsea til Eiðs Smára Guðjohnsen sem gerði frábæra hluti þar undir stjórn Claudio Ranieri. Aðdáendur Eiðs Smára geta ef til vill kynnt sér Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu þar sem hann sinnir nú stöðu aðstoðarþjálfara.

Einhverjir hafa svo eflaust fallið fyrir moldríka sjarmatröllinu Roman Abramovich. Þótt Rússagrýlan styggi eflaust einhverja eru aðrir sem þekkja ekki annað. Það verður að teljast líklegt að þeir fari að halda með Bournemouth, sem eru ekki einungis bláklæddir og sóknarsinnaðir heldur líka í eigu Rússa. Nostrovia!

Arsenal

Máttleysi hefur einkennt lið Arsenal á undanförnum árum sem voru eitt sinn þekktir fyrir sóknarbolta og þétta vörn. Þrátt fyrir að vera einstaklega viðkunnalegur þá er þjálfarinn Mikel Arteta ekki alveg týpan til að kveikja bál í hjörtum manna og hafa sumir leikir Arsenal upp á síðkastið haft svipað skemmtanagildi og tannaðgerðir. Væri ekki miklu skemmtilegra að fylgjast með Leeds, þar sem mörkin fljúga í bæði mörk í hverjum leik undir vökulu auga argentíska hjartaknúsarans Marcelo Bielsa?

Marcelo Bielsa - þvílíkur maður!
Getty