Á dögunum var opinberaður landsliðshópur Íslands sem mætir Ísrael og Eistlandi í undankeppni EM 2024. Lykilleikmenn Íslands eru í hópnum en Guðmundur hefur þó einnig þurft að skilja eftir marga góða og reynda leikmenn.

„Ég er mjög svo ánægður með þennan landsliðshóp,“ segir Guðmundur við Fréttablaðið. „Það er hins vegar þannig að hópur leikmannanna sem ég hef úr að velja hefur verið að breikka og því ekki um einfalt verk að ræða þegar kemur að vali í landsliðshópinn.

Það eru þarna leikmenn sem væru í tuttugu manna hópi sem ná ekki inn í þennan átján manna hóp núna. Þetta er jákvæður hausverkur fyrir okkur því það eru ekki bara góðir leikmenn innan hópsins heldur líka fyrir utan hann.

Eins og staðan er í dag tel ég þetta vera okkar sterkasta lið en sterkir leikmenn eru skildir eftir í þetta skiptið. Ég nefni sem dæmi Kristján Örn Kristjánsson í Frakklandi, Hauk Þrastarson og Ólaf Guðmundsson. Svo eru leikmenn í meiðslum eins og Óðinn Þór Ríkharðsson.“

Ólafur Guðmundsson er einn þeirra góðu leikmanna Íslands sem er ekki valinn í landsliðshópinn að þessu sinni
Fréttablaðið/GettyImages

Jákvæð þróun

Þróunin hefur verið á þá leið að hópurinn sem Guðmundur getur hugsað sér að velja í landsliðið hefur verið að breikka jafnt og þétt.

„Það er alveg hiklaust sem ég get sagt það. Þegar ég tók við liðinu á nýjan leik árið 2018 var það hluti af þeim markmiðum sem við þjálfarateymið og sambandið settum okkur með liðið að breikka þennan hóp leikmanna sem við höfum úr að velja.

Við byrjuðum mjög snemma á því að gefa ungum leikmönnum tækifæri, þetta er ákveðin vegferð sem við höfum verið á og nú, fjórum árum eftir upphaf hennar, finnst mér þetta hafa tekist mjög vel. Það er mjög jákvætt að upplifa það.“

Ekki hægt að slaka á

Næsta landsliðsverkefni íslenska karlalandsliðsins eru leikir í undankeppni Evrópumótsins gegn Ísrael og Eistlandi 12. og 15. október. Guðmundur segir að íslenska liðið hafi ekki efni á því að slaka á í þessum leikjum.

„Heilt yfir í öllum íþróttagreinum er raunin sú að það er ekkert gefið í þessu. Við þurfum að mæta í alla leiki af fullum krafti. Þessir tveir leikir eru fyrstu leikir okkar í þessari undankeppni og því mikilvægt fyrir okkur að fara vel af stað.Um skemmtilegt verkefni er að ræða en eins og ég segi, það er ekkert sjálfgefið í þessu lengur og þá get ég nefnt dæmi úr handbolta, körfubolta og fótbolta.

Þróunin hefur bara verið á þessa leið í íþróttum almennt séð. Þess vegna þurfum við að nálgast þetta verkefni af fagmennsku, eins og við höfum gert áður.“

Styttist í HM

Það er óhjákvæmilegt að líta aðeins lengra fram í tímann því fram undan er Heimsmeistaramótið í handbolta í janúar þar sem Ísland er á meðal þátttökuþjóða. Mótið fer fram í Póllandi og Svíþjóð og Ísland leikur sína leiki í riðlakeppninni í Kristianstad í Svíþjóð. Þar verða andstæðingarnir Portúgal, Ungverjaland og Suður-Kórea.

Guðmundur segir auðvelt fyrir hugann að reika að því móti. „Maður er náttúrulega alltaf með hugann við þetta þó svo að aðalfókusinn sé núna á þessa tvo leiki í undankeppni EM.

Það eru spennandi verkefni fram undan hjá íslenska landsliðinu
Fréttablaðið/GettyImages

Staðan er bara þannig með mig að ég horfi mjög mikið á handbolta og hef verið að horfa aftur á undanfarna leiki okkar við Ungverjaland og Portúgal, margsinnis. Í og með því er maður að undirbúa sig fyrir þessa leiki, spá og spekúlera

Fyrsta skrefið er að undirbúa liðið fyrir leikina gegn Ísrael og Eistlandi. Ísraelarnir eru sýnd veiði en ekki gefin. Það verkefni þarf að taka mjög alvarlega þó svo að úrslit okkar gegn þeim þegar að við mættum þeim síðast hafi verið mjög hagstæð. Ísraelarnir hafa undanfarið verið að ná í hagstæð úrslit sjálfir á móti nokkuð góðum liðum og ef við tökum þetta ekki alvarlega þá getum við lent mjög snemma í vandræðum.“

Fordæmalausar aðstæður

Það verður ekki annað sagt en að vonarneisti hafi kviknað hjá íslensku þjóðinni sem fylgdist stolt með framgöngu íslenska landsliðsins á EM í upphafi ársins. Liðið vann alla sína leiki í riðlakeppninni og stóð sína plikt vel þrátt fyrir fordæmalaus skakkaföll í landsliðshópnum þar sem margir leikmenn sýktust af kórónaveirunni.

Landsliðið vann hug og hjörtu þjóðarinnar enn og aftur á EM í upphafi þessa árs
Fréttablaðið/GettyImages

Að lokum var niðurstaðan sjötta sæti á mótinu og fyrirheitin fyrir framhaldið góð. Guðmundur skynjar ákveðna orku hjá leikmönnum sínum í landsliðinu nú þegar dregur nær næsta stórmóti.

„Það sem að ég finn er afskaplega góður andi í landsliðshópnum. Menn eru jákvæðir gagnvart verkefnunum fram undan. Ég get ekki talað fyrir hönd leikmannanna en maður finnur greinilega tilhlökkunina hjá leikmönnum að koma aftur saman og stíga inn á völlinn fyrir Íslands hönd. Það hefur gengið vel hjá okkur undanfarið, bæði í leikjunum á móti Austurríki sem og á EM. Það er góður gangur í þessu.“

Hneyksli ef satt reynist

Eitt hundrað milljónir eru eyrnamerktar verkefni tengdu byggingu nýrrar þjóðarhallar í innanhúss íþróttum í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 og hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar sakað ríkisstjórnina um að draga lappirnar í þessum efnum og tala óljóst.

Þá efast margir um að ný þjóðarhöll rísi á kjörtímabilinu en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir vinnu við nýja þjóðarhöll á fullu skriði, hún bindur vonir við að hún muni rísa á kjörtímabilinu. Þá greinir Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála, frá því í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að fyrsti fasi verkefnisins sé í fullum gangi.

Fulltrúar ríkis og borgar skrifuðu undir viljayfirlýsingu um byggingu nýrrar þjóðarhallar í maí síðastliðnum

Guðmundur, sem starfar einnig hjá danska úrvalsdeildarfélaginu Federicia samhliða landsliðsþjálfarastarfi sínu, fylgist vel með stöðu mála hér heima og segist vona að það eigi ekki að draga lappirnar enn einu sinni hvað þetta mál varðar.

„Ég hef fylgst með því í fréttum heima á Íslandi að mögulega sé verið að fara draga lappirnar í þessum efnum enn eina ferðina. Ef það er rétt og staðan er þannig þá er það hneyksli.

Hneyksli fyrir íslenska stjórnmálamenn yfir höfuð ef það er ekki meira að marka orð þeirra heldur en þetta. Það var skrifað undir viljayfirlýsingu í maí um byggingu nýrrar þjóðarhallar og ég vona bara að staðan sé ekki þannig að það eigi að draga lappirnar enn eina ferðina í þessu máli. Heldur að stjórnmálamennirnir okkar ætli sér að standa við gefin loforð.“