Þegar Manchester City staðfesti kaupin á Rubin Dias í gærkvöldi var stuðningsmönnum boðið að senda spurningar til Kalidou Koulibaly, miðvarðar Napoli.

Enska félagið gekk frá kaupunum á portúgalska landsliðsmiðverðinum Dias í gærkvöld. City greiddi 68 milljónir fyrir Dias en fékk fimmtán milljónir til baka fyrir Nicolas Otamendi.

Með því er Pep Guardiola búinn að bæta við öðrum miðverðinum í sumar á eftir Nathan Aké en City hefur lengst af verið orðað við Koulibaly hjá Napoli.

Það virðist sem svo að félagið sé annað hvort við það að tilkynna næstu leikmannakaup í Koulibaly eða að einföld mistök hafi átt sér stað.

Sem dæmi má áætla að vefsíðuteymi Manchester City hafi búið til síðu fyrir Koulibaly þegar það stefndi allt í að miðvörðurinn frá Senegal myndi skrifa undir á Etihad-vellinum.

Forráðamenn Napoli og Manchester City voru i viðræðum um vistaskipti Koulibaly í sumar en enskir fjölmiðlar fullyrtu í gær að ekki hafi tekist að semja um kaupverð og því hafi City ákveðið að klófesta Dias í hans stað.