Veðrið er ekki aðeins vont hér á Íslandi því um helgina er búist við stormi og mikilli rigningu í Englandi og eru forsvarsmenn enska boltans við öllu búnir. Nokkrir leikir um helgina eru taldir vera í hættu og gætu aðstæður verið þannig að það sé ekki leikfært. 

Búist er við miklu hvassviðri og rigningu í Englandi um helgina en um síðustu helgi þurfti að blása af leik Manchester City og West Ham vegna veðurs. Aðstæður voru einfaldlega ekki boðlegar. 

Það var ekki hægt að spila um síðustu helgi í Manchester vegna vinds og úrhelli.

Stormurinn Dennis mun ganga á land um helgina og íbúar norðurhlutans eiga að búast við hinu versta veðri. Viðureign Aston Villa og Tottenham er sagður vera í hættu vegna veðurs en búist er við miklum vindi í Birmingham. Arsenal á að fá Newcastle í heimsókn en spáð er mikilli rigningu í Lundúnum og hafa stuðningsmenn Newcastle fengið þau boð að lestaferðir úr norðrinu muni taka langan tíma. 

Samkvæmt nýjustu spám er búist við að laugardagurinn verði verri en sunnudagurinn en þá eiga Southampton og Norwich heimaleiki annars vegar við Burnley og heimsmeistara Liverpool hins vegar. 

Liverpool á leik gegn Atletico Madrid á þriðjudaginn í Meistaradeildinni og þarf nauðsynlega að fá leik til að undirbúa sig enda langt síðan að aðalliðið spilaði - síðasti leikur aðalliðsins kom gegn Southampton fyrsta febrúar.