Stærstu veðbankarnir hafa ekki trú á því að Strákarnir okkar klári riðlakeppnina með fullt hús stiga en þeir eiga það allir sameiginlegt að spá Ungverjum sigri á Evrópumótinu í handbolta í kvöld.

Ísland er í dauðafæri á að fara áfram í milliriðilinn með tvö stig. Sigur í kvöld þýðir að Ísland vann alla leikina sína í riðlinum.

Þrátt fyrir það spá allir veðbankar því að Ungverjar vinni nauman sigur í kvöld, meðal annars Íslenskar getraunir sem styrkir starf ÍSÍ.

Jafntefli dugar Íslandi til að komast áfram en ef Ungverjar vinna þurfa Íslendingar að fylgjast með leik Portúgals og Hollands til að sjá með næstu skref.

Leikurinn fer fram í einni stærstu handboltahöll Evrópu og er von á því að heimamenn fái góðan stuðning úr stúkunni í kvöld enda dugar Ungverjum líklegast ekkert annað en sigur í kvöld.

Um leið er von á um fimm hundruð Íslendingum sem ætla að láta vel í sér heyra þrátt fyrir að vera í minnihluta í stúkunni.