Undanúrslitin á HM í handbolta hefjast í dag og þeim lýkur í kvöld og þá verður leikið til úrslita á mótinu á sunnudaginn kemur. Í aðdraganda þessara leikja eru veðbankar sammála um það hvaða lið mun standa uppi sem heimsmeistari.
Ríkjandi heimsmeisturum í danska landsliðinu er spáð heimsmeistaratitlinum á nýjan leik og raungerist það yrði það í þriðja skiptið í röð sem Danir myndu lyfta heimsmeistaratitlinum og yrði það í fyrsta skiptið í sögu handboltans karlamegin að sama þjóðin myndi verða heimsmeistari þrisvar sinnum í röð.
Áður en það gerist mun liðið hins vegar þurfa að tryggja sér farmiðann í úrslitaleikinn og því verkefni standa Danir frammi fyrir í dag.
Klukkan 17:00 hefst leikur Spánverja á Dana. Spánverjar unnu magnaðan sigur á Norðmönnum í átta liða úrslitum í tvíframlengdum leik á meðan að Danir áttu ekki í neinum vandræðum með slakt lið Ungverja.
Í kvöld, nánar tiltekið klukkan 20:00, munu Frakkar og Svíar mætast í seinni undanúrslitaleiknum. Svíar eru ríkjandi Evrópumeistara og á heimavelli á HM en fá nú í hendurnar sitt stærsta verkefni til þessa á mótinu og þurfa að komast í gegnum það án síns besta leikmanns, Jim Gottfridsson.
Svíar fóru nokkuð þægilega í gegnum Egypta í átta liða úrslitum á meðan að Frakkar báru sigur úr býtum gegn Þjóðverjum sem leika undir stjórn Íslendingsins Alfreðs Gíslasonar.
Spá Betsson, Boylesports og Unibet er nánast á eitt. Veðbankarnir spá allir Dönum sigri á mótinu en þeim greinir þó á um það hvaða lið muni enda í 2. sæti.
Betsson og Unibet geta ekki gert upp á milli Frakka og Svía í 2. sætinu. Betsson setur stuðulinn 5.00 á bæði lið, Unibet 5,50. Boylesport telur Svía líklegri í þeirri baráttu.