Gunnar Nelson, mun enn á ný stíga inn í bardgabúrið á vegum UFC um komandi helgi þegar að risa bardagakvöld sambandsins fer fram í O2 höllinni í Lundúnum. Þar mun hann mæta Bandaríkjamanninum Bryan Barberena.
Vefsíðan Fightodds hefur tekið saman stuðla veðbanka fyrir bardagann og þeir eru á eitt sammála um að Gunnar sé líklegri til sigurs.
Ef stuðlar mismunandi veðmálafyrirtækja eru skoðaðir má sjá að stuðlarnir á sigur Gunnars reika frá 1.18 - 1.29 á meðan á stuðlarnir á sigri Bryans eru frá 3.40 - 4.55. Því lægri sem stuðullinn er á viðkomandi þeim mun líklegri er hann talinn standa uppi sem sigurvegari í bardaganum.
Fightodds hefur einnig tekið saman tölfræði um mögulega útkomu bardagans. Líklegasta útkoman er talin vera sú að Gunnar nái að þvinga fram stöðvun í bardaganum með uppgjafartaki, næst líklegasta útkoma bardagans er talin vera sú að Gunnar vinni hann á dómaraúrskurði.
Í gegnum UFC-feril Gunnars hefur það oft komið upp að skipta hefur þurft um andstæðing hans í aðdraganda bardaga, slík staða kom í aðdraganda þessa bardaga. Upphaflega átti Gunnar að mæta Daniel Rodriguez, sá þurfti hins vegar að draga sig úr bardaganum og mun Gunnar þess í stað mæta Bryan Barberena.
„Ég er orðinn mjög vanur því að þetta komi upp og er því ekki að stressa mig um of á þessu,“ sagði Gunnar við Fréttablaðið á dögunum. „Hvað þetta sérstaka tilfelli varðar þá vill nú svo vel til að skipt var úr þeim andstæðingi sem ég átti að mæta, Daniel Rodriguez, yfir í mjög sambærilegan bardagamann að einhverju leyti í Bryan Barberena þó þetta verði nú aldrei sami andstæðingurinn þá er þetta andstæðingur sem vill láta höggin tala, svokallaður „standup“ bardagastíll. Þetta er bara fínt.“