Gunnlaugur Jónsson dagskrárgerðarmaður lofar vasaklútaþætti í kvöld þegar annar þáttur af Áskorun fer í loftið á Sjónvarpi Símans. „Þetta er vasaklútaþáttur. Viðmælandinn er Ingi Þór Jónsson sundmaður og Ólympíufari. Þetta er ekki mjög þekkt saga og er mjög spennandi,“ segir Gunnlaugur sem var í miðjum klíðum að mála þegar Fréttablaðið náði í skottið á honum. Í þáttunum er rætt við afreksfólk í íþróttum sem hefur með einstöku hugarfari og þrautseigju sigrast á ólíkum áskorunum í gegnum lífið, innan vallar og utan. Gunnlaugur ræðir við Ólympíufaran og Akurnesinginn Inga Þór sem fór inn í skápinn sem íþróttamaður þegar hann kom út úr honum í einkalífinu, eins og segir í kynningu á þættinum.

„Þetta er margslungin saga en í grunninn er þetta strákur sem elst upp á Skaganum en hann byrjar lærir seint að synda. Það kemur þó fljótlega í ljós að hann hefur einhverja náðargáfu þar og verður afreksdrengur í sundi, þrátt fyrir að alast upp í Bjarnarlaug á Akranesi sem var um 12,5 metra löng. Þegar hann er að komast á unglingsárin fer hann að spá í hvort hann sé hommi. Honum líður illa og er að spá í að hætta að synda en það kemur í ljós að hann hafði náð Ólympíulágmörkum fyrir leikana í Los Angeles 1984. Þangað fer hann.“ Í kynningu þáttarins segir að Ingi hafi liðið vítiskvalir á leikunum.

Þátturinn fer í loftið í klukkan 20.10 en þetta er fimm þátta sería. Fyrsti þátturinn fjallaði um Elísabetu Gunnarsdóttur knattspyrnuþjálfara, og svo verður farið í saumanna á Evrópumeisturunum í hópfimleikaliði Gerplu, körfuboltamanninum Tryggva Hlinasyni og lokaþátturinn er um eitt ár í lífi landsliðsþjálfarans í handbolta, Guðmundr Guðmundssonar.