Í fjórða þætti nýjustu Drive to Survive seríunnar, sem ber nafnið Like Father Like Son, er sögu Verstappen og Schumacher feðganna velt upp en allir hafa þeir fjórir tekið þátt sem ökumenn í Formúlu 1.
Samgangurinn milli Schumacher og Verstappen fjölskyldunnar var mikill á sínum tíma og man Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari ökumann Formúlu 1, eftir stundum sem hann átti meðal annars með Michael Schumacher.
Í þættinum má sjá upptöku af samskiptum Jos Verstappen, föður Max og Michael Schumacher, föður Micks þar sem þeir ræða sína á milli um syni sína og hvort þeir myndu samþykkja að þeir yrðu Formúlu 1 ökumenn.
„Við áttum það til að fara í frí saman þegar að við Mick vorum litlir,“ segir Max Verstappen í heimildarþáttaröðinni Drive to Survive. „Þessar minningar lifa áfram með mér.“
Hann og Mick séu mjög stoltir af því að segjast vera Formúlu 1 ökumenn. „Og hvað Michael varðar, þá er ég viss um að hann sé stoltur faðir.“
Michael Schumacher er goðsögn í sögu Formúlu 1 mótaraðarinnar sem sjöfaldur heimsmeistari.
Eftir að Formúlu 1 ferlinum lauk lenti Michael í alvarlegu skíðaslysi árið 2013. Síðan þá hefur lítið spurst um líðan hans og virðir fjölskylda hans þá ósk hans, sem hafði verið gegnumgangandi á hans Formúlu 1 ferli, að halda einkalífinu út af fyrir sig.
Í fjórða þætti Drive to Survive birtist mynd þar sem Michael sést halda á bæði syni sínum Mick sem og Max Verstappen.
