Gary Neville segir að frægðarsól David Beckham hafi risið hratt eftir mark hans fyrir aftan miðju gegn Wimbeldon á sínum tíma í ensku úrvalsdeildinni.

Neville og Jamie Carragher, sérfræðingar Sky Sports völdu sínar eftirlætis stundir í ensku úrvalsdeildinni í tilefni 30 ára afmælis deildarinnar og þá barst mark Beckhams í tal.

,,Stundin þegar Beckham skoraði markið og eftirleikur þess situr mér fast í minni," sagði Gary Neville, fyrrum liðsfélagi Beckham hjá Manchester United á Sky Sports í gær.

,,Glamúrinn í kringum knattspyrnumenn hér á landi kom með George Best og varð síðan meiri með tilkomu Paul Gascoigne en eftir að Beckham skoraði fyrir aftan miðju var eins og mikil breyting hefði orðið á því. Það lyftist allt upp á næsta sig."

Hann segir markið hafa breytt öllu fyrir Beckham. ,,Það gerði það. Frægðarsól hans sprakk út, þetta skipti öllu máli fyrir hann og þá naut Manchester United einnig góðs af því.

Að sama skapi hafi önnur mál blandast inn í þetta. ,,Stuttu fyrir markið höfðu hann og Victoria byrjað að deita og við þekkjum öll hvernig sú saga þróaðist."

David og Victoria Beckham eru vel þekkt stærð í frægðarheiminum og hafa bæði skapað sér stór nöfn fyrir utan þá grein sem aflaði þeim lífsviðurværi í fyrsta lagi.

Beckham hefur gert stóra hluti sem fyrirsæta og þá hefur Victoria haskað sér völl sem tískuhönnuður.