Eftir að Arnar Gunnlaugsson og Rúnar Kristinsson, þjálfarar meistaraliðanna Víkings og KR, sögðu að gervigrasið í Egilshöll væri bágborið sendi Regin hf. og Knatthöllin yfirlýsingu þar sem þessum fullyrðingum var mótmælt. Fótbolti.net kafaði ofan í saumana á yfirlýsingu Regins og komst að því að hún var nánast öll röng. Nema notkunin. Allir virðast vera sammála um hana.

Sagt var í yfirlýsingunni að völlurinn væri vottaður af FIFA Quality staðalnum en fótbolti.net komst að því að það væri ekki rétt. Sú vottun sé runnin út og hefur ekki verið endurnýjuð. Vefsíðan bendir á heimasíðu FIFA þar sem 11 íslenskir vellir eru með þessa FIFA vottun og það er alveg sama hversu mikið er leitað. Egilshöll finnst ekki.

Þá segir í yfirlýsingunni að viðhald á gervigrasinu hafi verið reglulegt og eftir ýtrustu fyrirmælum framleiðanda og er því bæði sinnt af þjónustuaðila og starfsmönnum hússins. Þetta segir heimildarmaður fótbolta.net, sem er reyndar ekki nafngreindur, vera rangt. Viðhald vallarins sé alls ekki eins og best verði á kosið.

Þá bendir vefurinn á að vallarleyfi Egilshallarinnar hafi runnið út árið 2018.

Yfirlýsing Regins

Gervigrasið í Egilshöll er prófað og uppfyllir allar kröfur FIFA Quality staðalsins. Viðhald á gervigrasinu hefur verið reglulegt og eftir ýtrustu fyrirmælum framleiðanda og er því bæði sinnt af þjónustuaðila og starfsmönnum hússins.

Gervigrasið er tæplega fjögurra ára gamalt og er því fjarri að gervigrasið sé úr sér gengið, þrátt fyrir talsverða notkun.