Vara­for­menn Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands munu skipta með sér em­bætti formanns sam­bandsins til að byrja með. Gísli Gísla­son, annar vara­for­manna, stað­festi þetta í sam­tali við Frétta­blaðið.

Guðni Bergs­son, for­maður KSÍ, til­kynnti um af­sögn sína á fundi sem allir starfs­menn sam­bandsins voru boðaðir á klukkan 16 í dag.

Til­efni fundarins var að ræðu niður­stöðu stjórnar KSÍ sem fundað hefur stíft alla helgina varðandi meint of­beldis­brot leik­manna ís­lenska karla­lands­liðsins í knatt­spyrnu.

Auk Gísla gegnir Borg­hildur Sigurðar­dóttir einnig em­bætti vara­for­manns KSÍ og segist Gísli gera ráð fyrir því að þau muni skipta með sér stöðu formanns sam­bandsins áður en nýr for­maður verður kjörinn. Gísli sagðist ekki vita hve­nær yrði kosið um nýjan for­mann.

Að­spurður um hvort stokkað verði upp í lands­liðinu sagðist Gísli ekki geta tjáð sig um það að svo stöddu en von er á til­kynningu frá sam­bandinu síðar í dag.