Forráðamenn Þróttar Reykjavíkur eru orðnir langþreyttir á því aðstöðuleysi sem þeir telja félagið búa við og forráðamenn liðsins telja Reykjavíkurborg draga lappirnar hvað veitingu fjármagns til nauðsynlegra framkvæmda varðar.

Kristján Kristjánsson sem er varaformaður Þróttar brást við fundi borgarstjórnar sem haldinn var í dag með færslu á facebook-síðu sinni en merkja mátti gremju í orðum hans sem lesa má hér að neðan:

„Þróttarar og aðrir góðir landsmenn. Við erum núna – ég sem varaformaður í þessum merka félagsskap, Knattspyrnufélaginu Þrótti – að reyna að sannfæra Reykjavíkurborg um að sinna uppbyggingu íþróttamannvirkja í Laugardalnum fyrir skólana og íþróttafélögin þar, börn og unglinga og aðra iðkendur í t.d. Þrótti og Ármanni umfram uppbyggingu þjóðarleikvangs, bæði í inni- og útiíþróttum. Reykjavíkurborg segir alltaf nei, börnin verða að bíða á meðan við leggjum kapal með ríkinu en þetta ástand, ,,á meðan“ hefur núna staðið í mörg ár án þess að nokkuð hafi miðað," segir Kristján sem heldur svo áfram.

„Og nei, það er kannski ekki alveg satt, það er búið að stofna enn einn hópinn til að fara yfir mál enn og aftur. Okkur, foreldrum og forráðamönnum í Laugardal, þykir þessi forgangsröðun ósanngjörn og undarleg og lýsa virðingarleysi í garð þeirra sem í Laugardalnum búa.

Í Laugardalnum eru fjórir grunnskólar, enginn þeirra er með alvöru íþróttahús, í Laugardalnum er hverfisfélagið Þróttur enn að bíða eftir íþróttahúsi og varð félagið þó 70 ára um daginn, í Laugardalnum er stærsta knattspyrnudeild Reykjavíkur í uppsiglingu, hún getur boðið einn völl fyrir 150 krakka samtímis suma daga. Er þetta svona í mörgum öðrum hverfum Reykjavíkur? Nei, hélt ekki, segir Kristján enn fremur í færslu sinni.

Handboltafólk í Þrótti þarf of oft að fresta æfingum sínum að mati þeirra sem tengjast félaginu.
Mynd/Þróttur

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi í Reykjavík ræddi það í ræðustól á fundi borgarstjórnar í dag þar sem fjárhagsáætlun fyrir næsta ár sem og áætlun fyrir skipulag næstu fimm ára hjá borginni að undarlegt væri að hverfi sem muni brátt auka íbúafjöldann um 7000 manns og fjóra grunnskóla fái ekki betri hljómgrunn fyrir hugmyndir sínar um bætta aðstöðu til íþróttaiðkunar.

Katrín sem sat í starfshópi um skipulagsmál í Laugardalnum sem settur var á stofn í upphafi þessa árs segir að niðurstaða þess starfshóps hafi verið að hefja skipulagsvinnu og rýna í rekstarforsendur á svæði Þróttar.

Félagið sem rekur fjölmennustu knattspyrnudeild í Reykjavík og segir Katrín að ekki sé mögulegt að taka við fleiri iðkendum yfir vetrartímann og þá hafa samningar við Laugardalshöllina ekki staðist þannig að blak- og handboltaæfingar á vegum félagsins hafa ítrekað fallið niður. Þetta kom til að mynda fram í grein Fréttablaðsins sem birtist fyrr í vikunni.

Katrín segir að ekkert framkvæmdafé sé að finna til uppbyggingar Reykjavíkurborgar í fyrrgreindri fjárhagsáætlun en þess í stað hafi verið skipaður annar starfshópur um málið. Það er Katrín ekki sátt og vill að verkin verði látin tala í stað þess að halda áfarm að ræða málin.

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi Samfylkingarinnar sagði í svari við vangaveltum Katrínar að ekki væri ábyrgt að lofa Þrótturum fé til framkvæmda á meðan ekki væri búið að leysa úr kaplinum milli ríkis, borgar og einkaaðila um nýjan Þjóðarleikvang sem hugmyndir eru um að rísi í Laugardalnum.