Myndbandsdómgæsla (VAR) verður tekin upp í ensku úrvalsdeildinni frá og með næsta tímabili. Félögin í ensku úrvalsdeildinni samþykktu þetta á fundi hluthafa í dag.

Myndbandsdómgæslan var notuð í nokkrum leikjum í ensku bikarkeppninni og deildarbikarnum á síðasta tímabili með misjöfnum árangri.

Í apríl höfnuðu félögin í ensku úrvalsdeildinni því að taka upp VAR en afstaða þeirra hefur greinilega breyst á síðustu mánuðum.

Myndbandsdómgæslan er notuð í ítölsku og þýsku úrvalsdeildinni og var notuð á HM í Rússlandi í sumar og þótti það takast vel.