Hann segist vera virkilega stoltur af því að vera orðinn knattspyrnustjóri Aston Villa. ,,Síðustu sjö til tíu dagar hafa liðið ótrúlega hratt og það er virkilega gleðilegt fyrir mig að vera kominn aftur í ensku úrvalsdeildina, hafa tækifæri á því að vera nær fjölskyldu minni hér heima. Það voru helstu tvær ástæðurnar fyrir því að ég ákvað að taka þessu starfi."

Hann segir það samt sem áður hafa verið erfiða ákvörðun að yfirgefa skoska félagið Rangers. ,,Fyrir rúmlega tíu dögum síðan kom hins vegar tækifæri upp á borðið að stýra öðru sögufrægu liði og þetta var tækifæri sem ég gat ekki látið fram hjá mér fara."

Vilja aftur í Evrópukeppni

Gerrard var síðan spurður út í það hvað það teldist góður árangur hjá honum sem knattspyrnustjóri Aston Villa. ,,Árangur í knattspyrnu snýst alltaf um að vinna knattspyrnuleiki. Til langtíma litið vill félagið komast aftur í Evrópukeppni, ég tel ekki skynsamlegt á þessum tímapunkti að setja tímasetningu á það hvenær því markmiði verður náð.

Aston Villa er í slæmri stöðu í ensku úrvalsdeildinni nú þegar Gerrard er tekinn við knattspyrnustjórastöðunni. Liðið situr í 16. deildarinnar og hefur tapað fimm síðustu leikjum sínum. ,,Mikilvægast fyrir mig núna er að einblína á næsta leik liðsins sem er gegn Brighton á laugardaginn. Við þurfum að fara vinna leiki og byrja að klifra upp töfluna."

100% með hugann við Aston Villa

Um leið og ljóst varð að Gerrard tæki við knattspyrnustjórastöðunni hjá Aston Villa fóru knattspyrnuáhugamenn að kanna það hvenær Gerrard færi með lið sitt á sinn gamla heimavöll, Anfield sem er heimili Liverpool. Hann var spurður út í endurkomuna á blaðamannafundi í dag og út í mögulegt starf sem knattspyrnustjóri Liverpool í framtíðinni.

,,Ég tel að þessi blaðamannafundur eigi bara að snúast um Aston Villa á þessari stundu og með því sýnum við stuðningsmönnum liðsins virðingu. Það vita allir í heiminum hvaða tilfinningar ég ber til Liverpool en fókusinn minn er á Aston Villa, ég mun gefa allt í þetta verkefni, stuðningsmenn Aston Villa geta verið vissir um það," sagði Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Aston Villa á blaðamannafundi í dag.