Nikola Kalinic þáði ekki silfurmedalíu eftir að Króatía tapaði fyrir Frakklandi, 4-2, í úrslitaleik HM um síðustu helgi.

Kalinic var sendur heim frá Rússlandi eftir að hann neitaði að koma inn á sem varamaður í fyrsta leik Króatíu á HM; 2-0 sigri á Nígeríu.

Króatískir fjölmiðlar greina frá því að Kalinic hafi ekki viljað þiggja silfurmedalíu því hann hafi ekkert spilað á HM.

Kalinic bar fyrir sig meiðsli í baki þegar hann neitaði að koma inn á gegn Nígeríumönnum en Zlatko Dalic, landsliðsþjálfari Króata, gaf lítið fyrir þær útskýringar hans.

Kalinic, sem er þrítugur framherji, hefur leikið 41 landsleik og skorað 15 mörk. Hann leikur með AC Milan á Ítalíu.