„Auðvitað er það hundfúlt að fá þessar fréttir eftir þennan vetur. Eftir að hafa barist í gegnum hverja lægðina á eftir annari í öllum veðráttum og neitað að láta deigan síga. Þetta er líka heilmikið ferðalag þannig að maður gerir heilmikið úr því og skipuleggur margt,“ sagði Tinna Laufey Ásgeirsdóttir sem var á leiðinni til Tókýó á morgun fyrir maraþonið um næstu helgi.

„Ég var sem betur fer ekki komin út til Japan. Það hefði verið afar fúlt að lenda og fá þessi tíðindi komin alla leiðina til Tókýó.“

Skipuleggjendur mótsins ákváðu að minnka umfang hlaupsins vegna útbreiðslu kórónaveirunnar í Japan. Því fá aðeins fremstu spretthlauparar heims að taka þátt að þessu sinni.

Tinna var ein af tæplega tuttugu Íslendingum sem voru á leiðinni til Tókýó.

„Þetta var svo lítill fyrirvari að það þurfti að taka ákvörðun í flýti hvort að við ættum að fara til Tókýó í frí eða hætta við og reyna að fara á næsta ári. Ég á ennþá eftir að hlaupa hlaupið sjálft. Ég fór undir eins að afpanta það sem ég gat því ég sá ekki fram á að fara til Tókýó tvö ár í röð ef maður ætlar að hlaupa á næsta ári.“

Allar upplýsingar sem hlauparar fengu bentu til þess að hlaupið færi fram.

„Auðvitað velti maður því fyrir sér hvort að hlaupið færi fram, sérstaklega þegar maraþonið í Hong Kong var blásið af. Skipuleggjendur sögðust alltaf stefna á að hlaupið færi fram með viðeigandi varrúðarráðstöfunum. Ég var orðin fullviss um að hlaupið færi fram.“

Tinna hefur verið í stífum undirbúningsæfingum undanfarna mánuði fyrir þetta hlaup og sagðist ekki viss hvert næsta skref er.

„Svo er það, hvað á maður að gera við líkamlega formið. Við erum búin að æfa með það að markmiði að toppa á þessum tíma. Fer það til einskis? Á maður að taka sér pásu, leita sér að minna maraþoni annarsstaðar eða að lengja æfingatímabilið?“

Tinna er hálfnuð með sex stærstu maraþonin en hún á New York, Chicago og Tókýó eftir.

„Þetta frestar þeirri vegferð að klára þessi hlaup. Núna er það á stefnunni að fara til Tókýó á næsta ári en þetta riðlar áætluninni. Ég var búin að gera áætlun fyrir þessi þrjú hlaup en þar gerði ég ekki ráð fyrir Tókýó á næsta ári,“ sagði Tinna og hélt áfram:

„Markmiðið var að hlaupa hugsanlega í New York seinna á þessu ári en þá er of stuttur tími áður en það kemur að hlaupinu í Tókýó á ný. Nú þarf maður að setjast niður og búa til nýja áætlun,“ sagði Tinna létt að lokum.