Fjölskylda enska landsliðsmannsins í knattspyrnu Raheem Sterling, unnusta og tvö ung börn, var ekki heima þegar að vopnaðir innbrotsþjófar gerðu vart um sig á heimili fjölskyldunnar og höfðu á brott með sér þýfi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu lögreglunnar ytra
Unnusta Sterling, Paige Milian var því ekki heima með tvö börn þeirra þegar atvikið átti sér stað en Sterling hefur sjálfur verið í landsliðsverkefni með Englandi á HM í Katar.
The Sun hafði áður greint frá því að fjölskyldan hefði verið heima er vopnaðir innbrotsþjófar brutust inn á heimili fjölskyldunnar sem er staðsett aðeins fimmtán mínútum frá æfingasvæði Chelsea sem er félagslið Sterling. Það reyndist hins vegar ekki á rökum reist hjá breska miðlinum.
Þjófavarnarkerfi hússins fór af stað er þjófarnir brutust inn en þeir náðu síðan að flýja vettvang með þýfið, þar með talið úr sem eru verðmetin á um 300 þúsund pund, það jafngildir rúmum 52 milljónum íslenskra króna.
Um leið og Sterling fékk veður af innbrotinu bað hann forráðamenn enska knattspyrnusambandsins um leyfi til að ferðast heim til Englands sem hann og fékk.
Hann var því ekki í leikmannahópi enska landsliðsins í gær er liðið tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum HM með öruggum 3-0 sigri á Senegal.
Óvíst er þó hvort Sterling verði mættur aftur í enska landsliðshópinn fyrir næsta verkefni liðsins í 8-liða úrslitum gegn Frakklandi á laugardaginn næstkomandi.
Fréttin var uppfærð klukkan 11:09 með upplýsingum úr yfirlýsingu lögreglu.