Árið 2019 ákvað Alfreð að hætta sem þjálfari þýska liðsins Kiel, hann ætlaði að uppfylla loforð sitt um að hætta öllu því sem tengdist handbolta þegar að hann varð sextugur. Alfreð og Kara fóru saman í draumaferð með stórfjölskyldunni til að fagna tímamótunum.

,,Við fórum til uppáhalds borgar okkar San Sebastian á Spáni. Ég var þarna rétt hjá sem leikmaður rétt hjá á sínum tíma. Þar héldum við upp á sameiginlegt sextugs afmæli okkar með allri fjölskyldunni, þetta var æðislegur tími þar sem að við fórum meðal annars hægt og rólega í gegnum Frakkland og nutum tímans saman. Fljótlega eftir að við erum komin heim í byrjun október, sitjum við við morgunverðarborðið og ég tók eftir því að andlit hennar var aðeins slappara öðru megin. Við vorum að pæla í því hvað það væri og daginn eftir kom systir hennar í heimsókn og sá þetta líka. Eftir þessa helgi fórum við til Kiel í skoðun. Ég hafði óttaðist að þetta væri vægt heilablóðfall en þá kom í ljós að hún var með krabbamein í heila,“ sagði Alfreð í hlaðvarpsþætti Snorra Björnssonar.

Niðurstöðurnar lofuðu góðu

Barátta Köru við krabbameinið tók næstum því tvö ár. „Við héldum lengi vel að hún væri að vinna þessa baráttu. Eftir sex umferðir í efnameðferð lofuðu niðurstöðurnar mjög góðu, þetta hafði minnkað mikið. Okkur var sagt að meinið væri illkynja en mjög hægvaxandi og þeir gerðu sér vonir um að geta stoppað þetta. Það leit allt mjög vel út þannig að við komum hingað heim fyrir rúmlega ári síðan og vorum bara mjög jákvæð og bjartsýn."

Eftir það fór Kara í næstu sex umferðirnar í efnameðferðinni. ,,En áður en þessar sex umferðir voru búnar vorum við farin að taka eftir að eitthvað væri ekki í lagi. Þá var komið annað og stærra mein. Við fengum niðurstöðu úr því í byrjun maí og 31. maí dó hún. Það gerðist mjög hratt,“ sagði Alfreð.

,,Stórkostlegasta manneskja sem ég hef kynnst"

Alfreð og Kara voru búin að þekkjast frá því þau voru fimmtán ára. ,,Við byrjuðum saman sautján, átján ára. Hún var ekki bara konan mín heldur besti vinur minn og harðasti gagnrýnandi minn. Hún er stórkostlegasta manneskja sem ég hef kynnst,“ sagði Alfreð.

Alfreð hefur gert vel sem handboltaþjálfari og ætlaði sér að hætta þegar að hann yrði sextugur. Hann hætti þjálfun þýska liðsins Kiel árið 2019 en var ekki lengi frá þjálfun og tók við þýska landsliðinu árið 2020.

,,Þegar að þetta leit rosalega vel út og að við myndum sigrast á þessu, var það eiginlega hún sem vildi að ég færi aftur í þetta, væri með landslið og væri meira heima," sagði Alfreð

Þegar að veikindi Köru tóku stefnu til hins verra sagði Alfreð upp hjá þýska handknattleikssambandinu en Kara tók það ekki í mál. ,,Þegar að þetta fór í hina áttina, þegar ég kom heim úr landsliðslotu og við fórum til læknis til að fá niðurstöðu úr prófunum, voru fyrstu viðbrögð hjá mér að segja að ég væri hættur. Ég segi upp hjá þýska sambandinu, við förum heim til Íslands og eigum saman tíma heima. Á þessum tíma gat hún ekki talað, bara sagt já eða nei. Og hún hvæsti á mig nei. Þá sagði ég að við færum samt heim en hún sagði nei.“

Berst við reiðina

Alfreð telur að Kara hefði getað lifað lengur, í gegnum veikindin fór hún sínar eigin leiðir, gerði hlutina á sinn hátt. ,,Hún var ótrúlega sterk. Hún vildi helst ekkert borða og lítið drekka. Mér fannst á henni að hún ætlaði að taka þessi lok sín eins og hún vildi gera þetta. Ég gabbaði hana nokkrum sinnum til að taka næringu í æð en það var ekki séns, ekki að ræða það. Hún gerði þetta með sinni reisn og meira að segja síðustu dagana vildi hún að barnabörnin færu heim.“

Alfreð segir Köru hafa verið heilsteyptustu manneskju sem hann hefur kynnst. ,,Í fyrsta lagi berst maður við reiðina yfir þessari ósanngirni. Ef það er einhver sem hefði ekki átt að lenda í þessu þá var það hún. Af þessu lærir maður að allt hitt skiptir engu máli. Hvað er mikilvægt við handboltaleik eða smá áhyggjur af einhverju þegar maður upplifir svona. Kannski þarf maður vissan aldur til að læra á þetta,“ sagði Alfreð sem segist sjá eftir mörgu.

,,Maður hefði kannski átt að hætta í handboltanum tíu árum áður. Við ætluðum að fara að lifa lífinu og hafa það eins og við vildum. Akkúrat þegar við ætluðum að fara að njóta vinnu okkar fer þetta í hina áttina. Maður lærir hvað fjölskyldan, vinirnir og dagurinn í dag skiptir miklu máli. Og líka að í öllum þessum erfiðleikum voru ofboðslega falleg og skemmtileg móment á hverjum degi,“ sagði handboltaþjálfarinn Alfreð Gíslason í hlaðvarpi Snorra Björnssonar.