Emil var dáinn í tæpar fjórar mínútur eftir að hafa hnigið niður, endurlífgunartilraunir báru hins vegar árangur og nú er hinn 28 ára gamli Ísfirðingur á batavegi en þarf að fara hægt í sakirnar þó svo að fæturnir vilji helst sparka í bolta á ný, spretta upp völlinn og vinna sigra innan vallar.

Fréttablaðið ræddi við Emil í gegnum síma á hans síðasta degi í einangrun sem hann var skikkaður í eftir að hafa greinst smitaður af Covid-19 veirunni líkt og svo margir aðrir. Emil hefur ekki hugmynd það hvernig hann smitaðist en hefur að eigin sögn liðið vel í gegnum einangrunartímann og hefur verið einkennalaus.

Maður veit aldrei hvað getur gerst og núna er þetta spurning um að lifa lífinu á meðan maður getur það

Fljótlega eftir að Emil var útskrifaður af sjúkrahúsi í Noregi eftir að hafa fengið hjartastopp, lá leið hans heim til Íslands. Þar gat hann einbeitt sér að endurhæfingu og verið umvafinn fjölskyldu sinni.

,,Tíminn sem hefur liðið frá atvikinu er búinn að vera fínn. Ég mátti ekki gera neitt fyrstu vikurnar eftir hjartastoppið. Fyrsta mánuðinn var ég nánast ekkert að reyna á mig og fór í mesta lagi í göngutúr. Í byrjun desember fékk ég síðan leyfi fyrir því að byrja æfa með þeim skilyrðum að ég þyrfti að halda púlsinum undir 130 og ég verð á þannig prógrammi í þrjá mánuði.

Emil hefur dvalið á Íslandi undanfarið
Frettablaðið / Sigtryggur Ari

Undir þessum skilyrðum má Emil í raun æfa eins og hann vill, bara svo lengi sem hann fylgist með púlsinum og fer ekki yfir þetta setta mark. ,,Ég hef aðallega verið í styrktaræfingum, geri bara það sem ég get gert til þess að halda mér gangandi en síðan finnst mér það bara mikilvægt fyrir mína andlegu heilsu að ég haldi áfram að hreyfa mig."

Hugsar ekki út í óvissuna

Fótboltinn hefur aldrei verið langt undan hjá Emil sem hefur stundað íþróttina af miklu kappi síðan að hann var ungur strákur á Ísafirði. Maður getur því rétt ímyndað sér hversu erfitt og óþægilegt það hlýtur að vera að missa það frá sér.

Á þeim tímapunkti sem við ræðum við Emil er óljóst hvað tekur við og hvort hann geti leikið knattspyrnu yfir höfuð á ný. Sjálfur segist hann ekki vera að velta því mikið fyrir sér á þessum tímapunkti. ,,Ég hef ekkert verið að hugsa það mikið um það því óvissan er það mikil í kringum þetta. Ég veit ekki hvað gerðist á þessum degi sem varð til þess að ég fór í hjartastopp. Fyrir mig er það mikilvægt að forðast það að ákveða hvað gæti verið að fara gerast af því að ég veit það ekki með fullri vissu.

,,Ég bara reyni að hugsa ekki út í það og er á bara frekar að einbeita mér að því sem ég er að gera núna. Ég fór til Bandaríkjanna í tvær vikur yfir jólin, það var gott tækifæri fyrir mig til þess að kúpla mig bara út, slaka á og einbeita mér einhverju öðru heldur en fótbolta. Svo kemur það bara í ljós á næstu mánuðum hvort að ég geti haldið áfram að spila fótbolta eða ekki."

Bati Eriksen gefur von

Mörgum er í fersku minni atvik frá Evrópumótinu í knattspyrnu þegar að Christan Eriksen, leikmaður danska landsliðsins, hné niður í leik Danmerkur og Finnlands, eftir að hafa farið í hjartastopp. Atvikið átti sér stað nokkrum mánuðum áður en að Emil hné niður í leik og hann segist fylgjast með framgangi Eriksen.

,,Maður fylgist með því hvað er í gangi hjá honum en að sama skapi er hvert hjartastopp misjafnt. Það sem gerðist hjá honum er ekkert endilega það sama og gerðist hjá mér. Mitt tilfelli er enn í rannsókn, það á kannski eitthvað eftir að koma í ljós sem er ekki komið upp á yfirborðið ennþá."

Christian Eriksen hneig niður í leik með danska landsliðinu á EM sem fór fram í Englandi síðasta sumar
GettyImages

Eriksen hefur sett stefnuna á að geta tekið þátt á Heimsmeistaramótinu í Katar sem fer fram í nóvember á þessu ári. Daninn segist ekki liða neitt öðruvísi eftir hjartastoppið og vill sanna að þetta hafi verið einstæður atburður.

,,Svo á það eftir að koma í ljós hver ástæðan sé hjá honum fyrir því að halda áfram að spila fótbolta og hvort það sé eitthvað sem ég geti tengt við mínar aðstæður. Það gefur manni náttúrulega von um að maður gæti spilað fótbolta aftur þegar að maður fylgist með hans þróun."

Viðhorf til lífsins breyttist

Eins og Emil segir er orsökin fyrir hjartastoppinu hjá honum ekki fundin. ,,Ég er í eftirfylgd hér á Íslandi og er að bíða eftir niðurstöðum úr rannsókn sem er svona síðasta úrræðið í því að reyna finna orsökina fyrir hjartastoppinu. Ef það kemur ekkert út úr henni verður þetta líklegast bara skráð sem hjartastopp þar sem orsök kom ekki í ljós."

Fyrr í viðtalinu nefndi Emil andlegu heilsuna og því er ekki úr vegi að spyrja hvort svona atburður breyti ekki ásýnd manns og viðhorfi til lífins. ,,Ég held að allir sem hafa lent í þeirri reynslu að hafa dáið og vaknað aftur til lífsins, geti sagt að viðhorf þeirra til lífsins breytist. Maður tekur lífinu ekki lengur sem sjálfsögðum hlut. Hvað mig varðar þá hugsa ég að þetta hafi haft þau áhrif á mig að ef ég fæ löngun til þess að gera eitthvað ákveðið þá er ég ekki að fara hugsa mig tvisvar um það."

Viðhorf Emils til lífsins breyttist eftir daginn örlagaríka í nóvember
Fréttablaðið / Sigtryggur Ari

Emil er meðvitaðri um óvissuna sem fylgir lífinu. ,,Maður veit aldrei hvað getur gerst og núna er þetta spurning um það að lifa lífinu núna á meðan að maður getur það. Maður telur sig vera ósnertanlegan, að slæmu hlutirnir muni ekki koma fyrir mann, en þegar að þeir gera það þá breytir það hugarfarinu hjá manni að eilífu og er raunveruleikatékk."

Hvað næstu mánuði varðar vonast Emil til að geta haldið áfram jafnt og þétt að æfa og auka álagið. Svo mun það á endanum skýrast hvert framhaldið verður í boltanum. ,,Ef að þjálfunin heldur áfram að ganga vel mun ég fá leyfi til þess að æfa meira og reyna meira á mig. Svo á einhverjum tímapunkti verður bara tekin ákvörðun um það hvort ég megi halda áfram í fótbolta eða ekki. Eins og staðan er núna er það forgangsmál hjá mér að hugsa um heilsuna, hún er númer eitt, tvö og þrjú. Svo kemur bara í ljós hvað ég get gert eftir það."

Viðtalið við Emil birtist í Fréttablaði dagsins