Fjallað er um mál knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar á vefmiðlinum The Athletic í morgun. Tæpt ár er síðan Gylfi var handtekinn af lögreglu, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Hann er nú laus gegn tryggingu en næstu skref í málinu verða ákvörðuð 16. júlí næstkomandi.

Daniel Taylor, blaðamaður The Athletic ritar greinina. Hann segir Everton, félagslið Gylfa Þórs hafa reynt að gera sitt besta í að halda áfram sínum málum og aðskilja sig frá málinu en að það hafi gengið illa.

Liðsfélagar Gylfa fréttu fyrst af handtöku hans á undirbúningstímabilinu fyrir nýafstaðið tímabil. ,,Leikmenn Everton voru boðaðir á fund þar sem þeim var tjáð að Gylfi hafi verið handtekinn fyrir meint kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi."

Þó svo að ekki hafi verið farið í smáatriði á þeim fundi segir Daniel að leikmönnum Everton hafi verið brugðið. Gylfi Þór mætti ekki á æfingu þennan umrædda dag, 16. júlí árið 2021.

,,Knattspyrnufólk er á heildina litið þrautseigur hópur en samkvæmt upplýsingum frá fólki sem þekkja vel til aðstæðna hefur mál Gylfa verið erfitt fyrir leikmenn Everton sem hafa ekki vitað hvernig þeir áttu að bregðast við."

Það var fulltrúi hjá Everton sem sá til þess að finna annað hús fyrir Gylfa Þór þegar að málið kom upp, svokallað öryggishús.

,,Fjarri ljósmyndurum og fjölmiðlum sem vissi hvar hann átti heima fyrir. Starfsfólk Everton vissi að leikmaðurinn gat ekki búið að hóteli á meðan að svona alvarlegt mál væri í gangi."