Liverpool og Everton skildu jöfn, 2-2, þegar liðin mættust í fyrsta leik fimmtu umferðar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á Goodison Park í hádeginu í dag.

Sadio Mané kom Liverpool yfir í upphafi leiksins eftir stoðsendingu frá Andy Robertson en ljóst var að gestirnir ætluðu að hrista af sér slyðruorðið frá skellinum gegn Aston Villa í síðustu umferð deildarinnar.

Virgil van Dijk fór af velli meiddur á hné snemma leiks eftir tæklingu Jordan Pickford.

Miichel Keane jafnaði metin fyrir Everton með föstum skalla eftir góða sendingu frá James Rodriguez um miðbik fyrri hálfleiks.

Mohamed Salah náði aftur forystunni fyrir Liverpool þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum en boltinn hrökk fyrir fætur hans og Egyptinn skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Það var Dominic Calvert-Lewin sem tryggði Everton stig með sjöunda deildarmarki sínu á yfirstandandi leiktíð. Hann er enn markahæsti leikmaður deildarinnar en Salah og Son Heung-Min, leikmaður Tottenham Hotspusr, narta í hæla hans með sínum sex mörkum.

Gylfi Þór Sigurðsson kom inná sem varamaður á 73. mínútu leiksins.

Mikið gekk á í uppbótartíma leiksins en þá var Richarlison, framherja Everton, vísað af velli með rauðu spjaldi fyrir groddaralega tæklingu.

Jordan Henderson hélt svo að hann væri að tryggja Liverpool stigin þrjú. Henderson kom þá boltanum framhjá Jordan Pickford en VAR dæmdi Mané rangstæðan í aðdraganda marksins.

Ljóst er að sentímetra spursmál var á milli þess hvort Mané væri rétt- eða rangstæður.

Everton er áfram á toppi deildarinnar, nú með 13 stig en Liverpool er í öðru sæti með 10 stig.