Réttarhöld standa nú yfir í Argentínu vegna andláts þjóðhetjunnar Diego Armando Maradona sem andaðist rúmlega sextugur að aldri í nóvember á síðasta ári.

Í gær var tekinn vitnisburður af einum hjúkrunarfræðinganna sem ákærðir hafa verið fyrir manndráp af gáleysi.

Hjúkrunarfræðingurinn Ricardo Almiron var á næturvöktum sem hjúkrunarfræðingur knattspyrnugoðsagnarinnar. Almiron sagði fyrir rétti í gær að honum hafi verið uppálagt að trufla ekki nætursvefn Maradona.

Almiron er einn sjö hjúkrunarfræðinga sem sakaður er um vanrækslu í starfi í kringum andlát Maradona. Hann sagði Maradona hafa andað eðlilega og verið í fastasvefni þegar hann kannaði ástand hans nokkrum klukkustundum áður en hann lést.

Maradona fékk hjartaáfall sem varð banamein hans en hann hafði skömmu fyrir andlátið gengist undir aðgerð vegna blóðtappa í heila.

Fyrir rétti hefur verið lagt fram álit 20 óháðra sérfræðinga þar sem fram kemur að umönnun Maradona hafi verið ábótavant.