Ragnhildur Kristinsdóttir var á dögunum kosin íþróttakona ársins hjá Eastern Kentucky háskólanum ásamt því að vera valinn kylfingur ársins í ASUN-deildinni.

Hún hefur leikið fyrir hönd EKU undanfarin fimm ár en hefur nú lokið námi og stefnir á atvinnumennsku í haust.

Aðspurð hvort að henni hefði tekist að skrifa nafn sit í sögubækur skólans segir Ragnhildur að hún hafi fengið skilaboð um það frá þjálfara sínum á dögunum.

„Ég náði ekki metinu yfir flesta sigra á mótum fyrir hönd skólans en þjálfarinn minn hafði orð á því að ég bætti einhver ellefu eða þrettán skólamet á lokaárinu mínu.“

Hún viðurkennir að það sé skrýtið að þessum kafla sé lokið.

„Það var skrýtin tilfinning að setja niður síðasta púttið á háskólamóti og hugsa að þessum kafla lífs manns væri lokið, eftir fimm ár. Það var ákveðin tómleikatilfinning en á sama tíma er ég auðvitað mjög stolt af því sem ég afrekaði.“

Aðspurð tók Ragnhildur undir að nafnbótin íþróttakona ársins hjá EKU sem hún fékk fyrir árangur sinn væri skemmtileg viðbót.

„Mér datt í hug að þetta færi svona og var tilbúin með ræðuna eftir að ég sá að liðið okkar var valið lið ársins og þjálfarinn valinn bestur.“